Innlent

Þjóðarhagsmunir skilgreindir með mismunandi hætti í stjórn og stjórnarandstöðu

Heimir Már Pétursson skrifar
Gögn sem núverandi utanríkisráðherra taldi varða þjóðarhagsmuni að birta í nóvember í fyrra vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu, gætu skaðað hagsmuni Íslands ef þau verða birt í dag að mati ráðherra.

Það er ekki nýtt að þingmenn tali með einum hætti í stjórnarandstöðu og allt öðrum þegar þeir eru komnir í stjórnarlið hvað þá ráðherrastóla. Í skriflegu svari utanríkisráðherra til Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins varðandi samningsmarkmið Íslands í viðræðum við Evrópusambandið ríkja allt önnur sjónarmið en ráðherrann hafði þegar hann var þingmaður.

Vilhjálmur vildi með fyrirspurn sinni fá fram samningsmarkmið Íslands í mikilvægum málaflokkum gagnvart Evrópusambandinu, eins og landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og þau drög sem lægju fyrir í þeim efnum. Ráðherra lætur nægja að vísa til samningsmarkmiða við upphaf umsóknar árið 2009 og segir:

„Þau samningsmarkmið sem þáverandi ríkisstjórn vann út frá er að finna í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsóknina.“

Hvað varðar drög að óbirtum markmiðum svarar Gunnar Bragi:

„Telja verður að birting á þeim drögum að samningsafstöðu sem hér um ræðir kunni að skaða hagsmuni Íslands komi til þess að aðildarviðræður hefjist á nýjan leik." og vísar þar til upplýsingalaga,  - umrædd gögn hafi hins vegar verið send utanríkismálanefnd sem sé bundin trúnaði. En um það mál sagði Gunnar Bragi í nóvember í fyrra, þá stjórnarandstæðingur og fulltrúi í utanríkismálanefnd:

„Ég fer því fram á það virðurlegur forseti að forseti beiti sér fyrir því að trúnaði á þessum málum í utanríkismálanefnd  á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið verði aflétt,“

Undir þetta tók núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

„Við erum að takast á um hvort að við séum að uppfylla og standa fast á þeim kröfum sem við segjumst vera að gera  og ég fer fram á það að við ræðum það fyrir opnum tjöldum,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd.

Og Gunnar Bragi bætti við varðandi trúnaðinn:

„Vegna þess að það vita allir hvernig þessir samningar að sjálfsögðu fara fram. Það er ekki þannig að það, að það sé eitthvað í þessum samningum sem komi Evrópusambandinu á óvart þegar þangað er mætt. Það er ekki þannig. Það má líka snúa þessu við, virðurlegur forseti. Það eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar að fá að vita hvað stendur í þessari samningsafstöðu sem send er út,“ sagði Gunnar Bragi hinn 5. nóvember 2012.

Utanríkisráðherra gaf ekki kost á viðtali þegar eftir því var leitað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×