Viðskipti innlent

Aukin gagnanotkun liður í góðri afkomu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Tekjur Vodafone hækkuðu um eitt prósent á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra.
Tekjur Vodafone hækkuðu um eitt prósent á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Fréttablaðið/Pjetur
„Þessi góða afkoma kom ekki á óvart og við erum því hvorki að endurskoða fyrri áætlanir eða senda frá okkur afkomuviðvaranir,“ segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone.

Fjarskiptafyrirtækið birti á mánudag uppgjör sitt fyrir þriðja fjórðung þessa árs. Þar kom fram að hagnaður Vodafone nam 415 milljónum króna á tímabilinu og jókst um 192 prósent miðað við sama tíma árið 2012. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 990 milljónum króna og hefur að sögn Ómars aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi.

Ómar segist ekki geta bent á eitt tiltekið atriði sem skýri aukinn hagnað og að útkoman sé samspil ýmissa þátta.

„Gagnanotkun heimila og fyrir­tækja er að breytast með tilkomu fleiri þráðlausra tækja. Þetta er ekki eins og fyrir fjórum til fimm árum þegar það voru einungis eitt til tvö tæki á hverju heimili heldur eru þau nú í kringum fimm til átta að meðaltali. Við sjáum einnig að þeim viðskiptavinum sem kaupa sjónvarpsþjónustu af okkur er að fjölga og fleiri leigja sér myndefni í gegnum okkar dreifileið,“ segir Ómar.

Hann segir að hefðbundin farsímanotkun hafi einnig aukist á tímabilinu og nefnir fjölgun í bæði SMS- og MMS-skilaboðum.

„Góð afkoma tengist einnig aðhaldi í rekstri. Við höfum fækkað starfsmönnum og stöðugildum og dregið úr kostnaði en samt haldið í atriði sem snúa að aukinni samkeppnisfærni. Við höfum lagt áherslu á að láta kostnaðinn elta tekjurnar og okkur hefur tekist betur í þeim efnum á þessu tímabili en oft áður. Á sama tíma erum við ekki að draga úr fjárfestingum eða styrk fyrirtækisins og það skilar sér niður í alla liði rekstrarins.“

IFS greining spáði í vikunni að fjórði ársfjórðungur Vodafone verði lakari en sá þriðji. Ómar segir spána einkennilega í ljósi þess að þriðji ársfjórðungur fyrir­tækisins hafi alltaf verið betri en aðrir.

„Fjórði ársfjórðungur er ólíkindatól og sveiflast töluvert og var ekki góður hjá okkur í fyrra. En ég er bjartsýnn á að útkoman verði í takt við þau viðmið sem við höfum áður sett okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×