Viðskipti innlent

Ekki lengur popp og kók í Sambíóum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Samningur um þetta var undirritaður á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í Þjóðleikhúsinu í dag og vottaði Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo samninginn við það tækifæri.
Samningur um þetta var undirritaður á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í Þjóðleikhúsinu í dag og vottaði Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo samninginn við það tækifæri.
Sambíóin munu héðan í frá selja gosdrykki frá Ölgerðinni en Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Sambíóin hófu samstarf í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Þar segir að um sögulegan viðburð sé að ræða því þetta sé í fyrsta sinn í yfir 30 ár sem Sambíóin selja gosdrykki frá Ölgerðinni í kvikmyndahúsum sínum. 

„Það er okkur mikið ánægjuefni að hafa náð samningum við Sambíóin enda er kvikmyndahúsakeðja þeirra gríðarlega sterk og þetta markar tímamót að mörgu leyti,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson.

„Þetta er góður viðskiptasamningur fyrir báða aðila og við sjáum Ölgerðina í mikilli sókn. Fyrirtækið býður upp á breytt og gott vöruúrval og við hlökkum til samstarfsins,“ segir Árni Samúelsson, eigandi Sambíóa.

Í tilkynningunni segir að Sambíóin hafi yfir 50 prósent markaðshlutdeild á kvikmyndahúsamarkaðnum. Þau bjóði 2906 sæti í fimm kvikmyndahúsum í Reykjavík, Keflavík og á Akureyri. Sambíó hafi verið fyrsta kvikmyndahúsið sem leyfði gestum að hafa gos með sér inn í sali.

Samningur um þetta var undirritaður á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í Þjóðleikhúsinu í dag og vottaði Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo samninginn við það tækifæri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×