Viðskipti innlent

Býður 100 milljóna króna lán í skiptum fyrir þyrlur og demanta

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hæsta lánið sem fyrirtækið hefur hingað til veitt er fjórar milljónir króna.
Hæsta lánið sem fyrirtækið hefur hingað til veitt er fjórar milljónir króna. mynd/365
Verslunin Kaupum gull býður veðlán allt frá 100 þúsund krónum upp að 100 milljónum króna. „Við höfum verið að bjóða upp á þetta í þrjá til fjóra mánuði núna og þetta hefur gengið alveg prýðilega,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, framkvæmdastjóri og einn eigandi fyrirtækisins Kaupum Gull.

Hann segir að félagið láni allt að 70 til 80 prósent af verðmæti gripsins sem komið er með. Algengustu lánin séu frá hálfri milljón upp í eina og hálfa milljón. Hæsta lánið hingað til er fjórar milljónir.

Sverrir segir vextina vera fjögur prósent á mánuði.

„Ég á ekki von á því að margir taki lán upp á 100 milljónir, en til þess þyrfti að koma mjög verðmætur gripur í staðinn, til dæmis þyrla eða flugvél eða þá mjög verðmætur demantur,“ segir Sverrir.

Hann segir hlutafélagið fjármagna sig með eigin fé.

Á Facebook síðu fyrirtækisins segir að lánatilboðið fáist á innan við sólarhring eftir að félagið hefur fengið gripinn. Upphæðin er greidd beint inn á bankareikning viðkomandi. Lánið er til þriggja mánaða í senn en möguleiki er á að framlengja það eða að gera það upp hvenær sem er.

Á síðunni kemur einnig fram að gripirnir séu geymdir í öruggri geymslu og þeir séu tryggðir að markaðsverðmæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×