Innlent

Veiðigjöld lækka um tæpa þrjá milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Áætlað er að veiðigjöld muni hækka í þremur af fjórum landshlutum sem borguðu minnstan hluta veiðigjalda á síðasta fiskveiðiári. Veiðigjöld lækka í öllum öðrum landshlutum.
Áætlað er að veiðigjöld muni hækka í þremur af fjórum landshlutum sem borguðu minnstan hluta veiðigjalda á síðasta fiskveiðiári. Veiðigjöld lækka í öllum öðrum landshlutum. Mynd/Egill Aðalsteinsson
Á síðasta fiskveiðiári 2012/2013 voru heildar veiðigjöld, bæði almennt og sérstakt 12.643 milljónir króna. Áætlað er að veiðigjöld muni skila 9.929 milljónum króna í ríkiskassann á núverandi fiskveiðiári, en það er lækkun um 2.714 milljónir. Þó er áætlað að lækkun sérstaks veiðigjalds vegna kaupa á aflaheimildum lækki um rúmar 1.500 milljónir króna á landsvísu.

Stærstur hluti veiðigjaldanna kom, á síðasta fiskveiðiári, frá Reykjavík og voru það 3.265 milljónir króna. Næst mest kom frá Suðurlandi eða 2.783 milljónir króna. Frá Norðurlandi eystra komu 2.018 milljónir, 1.567 frá Austurlandi, 915 frá Reykjanesi, 723 frá Norðurlandi vestra, 573 frá Vesturlandi, 515 frá Vestfjörðum og 284 milljónir króna frá nágrenni Reykjavíkur.

Heildarfjárhæð lækkana á sérstaka veiðigjaldinu vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum voru 1.300 milljónir á síðasta fiskveiðiári. Mest var lækkunin á Reykjanesi, 429 milljónir króna.

Áætluð veiðigjöld fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, 2013/2014, sé reiknað með því að óúthlutað aflamark í loðnu, makríl og fleiri stofnum verði í samræmi við áætlanir og landfræðileg úthlutun óbreytt, eru 9.929 milljónir króna. Heildarfjárhæð lækkunar sérstaks veiðigjalds vegna kaupa á aflaheimildum er áætlað 1.300 milljónir.

Athygli vekur að samkvæmt áætlun munu veiðigjöldin hækka frá þremur landshlutum. Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Vesturlandi, en þeir landshlutar eru jafnvel með hlutfallslega mest af smáum útgerðum. Í sumar var talað um það á Alþingi að með breytingum á veiðigjaldi ætti að hlífa smáum og meðalstórum útgerðum og láta stærri útgerðir borga stærri hluta veiðigjalda.

Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller varðandi veiðigjöld eftir sveitarfélögum. Í svarinu kemur þó fram að óeðlilegt væri að skipta álagningu veiðigjalds niður eftir sveitarfélögum, sökum þess að í smærri sveitarfélögum séu aðeins fáir aðilar í útgerð. Því var veiðigjöldum skipt niður á landshluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×