Viðskipti innlent

Segist ekki hafa tekið stöðu gegn krónunni

Hannes Frímann Hrólfsson
Hannes Frímann Hrólfsson mynd/stefán
Hannes Frímann Hrólfsson, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Kaupþingi, segist ekki hafa tekið stöðu gegn krónunni, eins og kom fram í veftímaritinu Kjarnanum í morgun.

Hannes segir í yfirlýsingu að framsetningin sé röng og villandi, enda komi síðar fram í umfjölluninni að samningarnir hafi verið gerðir til að verja erlend lán sem voru til staðar.

Kjarninn vitnaði í skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið PwC gerði fyrir slitastjórn Kaupþings. Þar kom fram að fjórir fyrrverandi starfsmenn Kaupþings hafi tekið stöðu gegn krónunni fyrir hrun.

„Í fyrsta lagi skal tekið fram að farið var að öllu með réttum hætti og ekki um neinskonar frávik frá lögum og reglum að ræða.

Í öðru lagi var til staðar kaupréttarkerfi í Kaupþingi þar sem lykilstarfsmenn keyptu hlutabréf í bankanum gegn láni, eins og alþekkt er af umfjöllun. Í mínu tilfelli var um að ræða erlend lán til kaupa á hlutabréfum í krónum. Þeir gjaldeyrissamningar sem nú eru til umfjöllunar er hin hliðin á því máli. Þannig myndaðist tap af lánasamningunum vegna veikingar krónunnar en hagnaður á móti af gjaldmiðlasamningunum. Því er það rangt sem haldið er fram að um stöðutöku gegn krónunni hafi verið að ræða.

Í þriðja lagi hefur átt sér stað fullnaðaruppgjör við slitastjórn Kaupþings vegna þessara mála í heild. Mikil óvissa var um stöðu svokallaðra Kaupþingslána eftir að persónuleg ábyrgð á þeim var felld niður.  Í fyrra féll hins vegar dómur í mínu máli í Héraðsdómi Reykjavíkur í tengslum við Kaupþingslánin.  Ég tapaði því máli. Í framhaldinu gekk ég frá uppgjöri við slitastjórn Kaupþings þar sem m.a. var tekið fullt tillit til framangreindra þátta," segir í yfirlýsingu Hannesar Frímans.


Tengdar fréttir

Starfsmenn Kaupþings tóku stöðu gegn krónunni

Nokkrir háttsettir menn hjá Kaupþingi fyrir hrun tóku stöðu gegn krónunni áður en hún féll í mars árið 2008. Veftímaritið Kjarninn birti í dag skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið PwC vann fyrir slitastjórn Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×