Viðskipti innlent

RARIK í umfangsmikið jarðavarmaverkefni í Tyrklandi

Úr höfuðstöðvum Zorlu í Istanbúl í júní sl. þegar búið er að ganga frá viljayfirlýsingu og samningaviðræður hafnar.
Úr höfuðstöðvum Zorlu í Istanbúl í júní sl. þegar búið er að ganga frá viljayfirlýsingu og samningaviðræður hafnar. Mynd/RARIK
RARIK Orkuþróun (RED) hefur ásamt EFLU verkfræðistofu gert samning við tyrknesta orkufyrirtækðið Zorlu Enerji AS um virkjun jarðvarma við fjallið Nemrut í Austur-Tyrklandi. Zorlu er öflugt orkufyrirtæki með umfangsmikla starfsemi. Fyrirtækið á meðal annars og rekur stærstu jarðvarmavirkjun Tyrklands sem nýverið var stækkuð í 95 MWe.

Undanfarin ár hefur RARIK Turkison Enerji (RTE), félag í eigu EFLU og RED, unnið við rannsóknir á jarðhitasvæðum í Tyrklandi sem hafa staðfest að verulegar líkur eru á að unnt sé að nýta jarðvarma til orkuöflunar við Nemrut og byggja upp hitaveitu. Aðkoma Zorlu að málinu sem leiðandi aðila styrkir verkefnið og tryggir áframhaldandi rannsóknir og framkvæmdir á svæðinu.

Nýstofnað fyrirtæki, Nemrut Jeotermal Elektrik Üretimi AS (Nemrut Jeotermal), í eigu Zorlu og RTE mun annast frekari rannsóknir á svæðinu og síðan boranir vegna jarðvarmavirkjunar sem ætlað er að framleiða allt að 100-150 MWe af rafmagni og leggja til heitt vatn fyrir hitaveitu. Heimamenn hafa miklar væntingar til verkefnisins og ekki síst þekkingar Íslendinga á fjölbreyttri nýtingu á jarðhita. Nemrut Jeotermal stefnir að því að ráðast í virkjunarframkvæmdir og gerð hitaveitu á svæðinu.

Steinar Friðgeirsson, framkvæmdastjóri RED, segir að framkvæmdirnar í Tyrklandi feli meðal annars í sér útflutning á sérhæfðri þekkingu Íslendinga á sviði orkumála og nýtingu umhverfisvænna orkulinda. Verkefnið skapar störf fyrir starfsmenn EFLU og RARIK og hugsanlega fleiri íslenska sérfræðinga í Tyrklandi en fyrirtækin tvö verða ráðgjafar við jarðhitaverkefnið og samninga því tengdu.

J. Rúnar Magnússon, deildarstjóri jarðvarma og hitaveitnahjá EFLU, segir að nýting jarðvarmans við Nemrut hafi jákvæð áhrif á umhverfið og bæti lífsgæði í nálægum byggðum og dragi úr notkun á lífrænu eldsneyti. „Ráðgjafarsamningur EFLU og RED við Zorlu styrkir aðkomu íslenskrar þekkingar við nýtingu jarðvarmans í Tyrklandi sem er mikilvægur markaður á þessu sviði til framtíðar,“ segir Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×