Handbolti

Guðmundi líkt við Martin Sheen | Slær á létta strengi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Við vorum einangruð svo lengi að við höfðum ekkert betra að gera en að búa til flókin nöfn,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen.

Guðmundur skellti sér í viðtal hjá fréttamanni evrópska handknattleikssambandsins á dögunum sem reyndist í skrýtnari kantinum. Fréttamaðurinn hóf viðtalið á að benda Guðmundi á hve nauðalíkur hann væri bandaríska leikaranum Martin Sheen.

„Það er mikið hrós. Takk fyrir það,“ sagði Guðmundur og viðurkenndi að hann hefði ekkert á móti því að vera jafn vel stæður og kollegi sinn.

Fréttamaðurinn bað Guðmund um að bera fram nafnið sitt og velti síðan upp þeirri spurningu hvers vegna allir frá Íslandi bæru svo erfið nöfn. Guðmundur hafði svar á reiðum höndum.

„Við vorum einangruð svo lengi að við höfðum ekkert betra að gera en að búa til flókin nöfn,“ sagði Guðmundur léttur. Hann sagðist sáttur við byrjun Ljónanna á leiktíðinni. Liðið væri í þremur keppnum og ætti möguleika á sigri í þeim öllum.

Varðandi framtíð Uwe Gensheimer hjá Ljónunum vildi Guðmundur lítið gefa uppi. Gensheimer hefur meðal annars verið orðaður við Kiel. Guðmundur sagði að niðurstaða í mál hornamannsins væru handan við hornið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×