Viðskipti innlent

Dansar argentínskan tangó á kvöldin

Haraldur Guðmundsson skrifar
Svana Helen Björnsdóttir, starfandi stjórnarformaður Stika og formaður Samtaka iðnaðarins.
Svana Helen Björnsdóttir, starfandi stjórnarformaður Stika og formaður Samtaka iðnaðarins. Mynd/aðsend.
Svana Helen Björnsdóttir, starfandi stjórnarformaður Stika, segir hefðbundinn dag í lífi hennar einkennast af fundarsetum, fyrirlestrahaldi og fjölbreyttri verkefnavinnu. Þess á milli dansar hún argentínskan tangó og siglir á seglskútu með fjölskyldunni. 



„Ég er í fullu starfi sem stjórnarformaður Stika og þessa dagana er ég að sinna rannsóknarverkefni í áhættugreiningu í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og fleiri aðila,“ segir Svana.

Ásamt því að vera í fullu starfi hjá Stika situr Svana í nokkrum stjórnum. Hún er meðal annars formaður Samtaka iðnaðarins, í framkvæmdastjórn og stjórn Samtaka atvinnulífsins og í stjórn Landsnets og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.

„Öll mín störf, í hverju sem þau felast, tengjast íslenskum iðnaði og atvinnulífi og eflingu þeirra með einhverjum hætti,“ segir Svana.

Svana er rafmagnsverkfræðingur og hefur að auki lokið námi í alþjóðlegum markaðsfræðum og rekstrarverkfræði. Hún stofnaði ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækið Stika árið 1992 en fyrirtækið sérhæfir sig í áhættustjórnun og upplýsingaöryggi.

Hún er gift Sæmundi E. Þorsteinssyni, fjarskiptaverkfræðingi hjá Símanum, og þau eiga saman þrjá syni, Björn Orra, sem er nítján ára, og tvíburana Sigurð Finnboga og Þorstein, sem eru sautján ára.

Spurð um áhugamál segir Svana að þau hjónin hafi í nokkur ár dansað argentínskan tangó og að hún stundi einnig þolfimi og jóga í hverri viku.

„Síðan eigum við 34 feta seglskútu, Amíu, og við stefnum að því að eyða meiri tíma á henni. Faðir minn átti skútuna áður en ég tók við henni til að sameina fjölskylduna í útivist. Ég á þrjá dugnaðarstráka og þessi ákvörðun var tekin í samráði við þá,“ segir Svana.

Svana eyðir einnig talsverðum hluta af frítíma sínum í málefni tengd Þjóðkirkjunni. Hún er kjörinn fulltrúi á Kirkjuþingi og er varamaður í kirkjuráði Þjóðkirkjunnar.

„Við sem búum á Íslandi erum góðu vön, við búum við jafnrétti fólks og mikið frelsi á öllum sviðum. Þessi lífsgæði eru ekki sjálfsögð og það vill gleymast í umræðu hér að þetta eigum við kristnum lífsgildum að þakka. Ástæða fyrir því að ég hef áhuga á trúarlegum málum er einnig sú að ég tel að siðvit sé mjög mikilvægt í bland við hugvit og verkvit. Ég tel mikilvægt að menn starfi til góðs og störf manna séu til góðs.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×