Viðskipti innlent

Ósáttur við afskipti Fjármálaeftirlitsins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Erlendur segir að eftir rannsókn sem stóð í rúm tvö og hálft ár hafi saksóknari komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra í málinu.
Erlendur segir að eftir rannsókn sem stóð í rúm tvö og hálft ár hafi saksóknari komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra í málinu.
Sérstakur saksóknari hefur dregið til baka ákæru á hendur Erlendi Magnússyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni, vegna meintra innherjasvika þegar hann seldi hluti félagsins Fjársjóðs ehf. fyrir tíu milljónir króna árið 2008.

Í samtali við VB.is segist Erlendur ánægður með ákvörðun Sérstaks saksóknara. Hann segir mál ákæruvaldsins hafa verið veikt og varnir sínar hafa verið sterkar.

„Mér létti þegar ég heyrði af ákvörðun saksóknara á mánudagskvöld. Niðurstaða hefði hugsanlega ekki legið fyrir fyrr en eftir tvö ár og slíkt tekur á fólk, andlega, líkamlega og fjárhagslega,“ segir Erlendur en rannsókn málsins hófst eftir kæru Fjármálaeftirlitsins til embættis Sérstaks saksóknara.

Erlendur segir að eftir rannsókn sem stóð í rúm tvö og hálft ár hafi saksóknari komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra í málinu. Fjármálaeftirlitið hafi hins vegar ekki viljað sætta sig við þau málalok og krafðist þess að ríkissaksóknari hlutaðist til í málinu.

„Ríkissaksóknari gerði sérstökum saksóknara svo að ákæra í þessum tiltekna hluta málsins. Í ferlinu var ekki rétt staðið að hlutunum og frestir runnu út og var ákæran því dregin til baka á mánudaginn,“ segir Erlendur og kveðst afar ósáttur við afskipti Fjármálaeftirlitsins af málinu.

„Ég velti því fyrir mér hvort Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að skipta sér með þessum hætti af ákæruvaldinu. Þá hugsa ég líka að þetta mál endurspegli gallann við embætti sérstaks saksóknara. Það embætti var ekki sett upp til að rannsaka glæpi tengda hruninu, heldur bókstaflega að finna þá. Hundruð manna hafa fengið réttarstöðu sakbornings og ég er sannfærður um að mikill meirihluti þeirra muni aldrei sæta ákæru.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×