Innlent

Stefnulaus ríkisstjórn

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin bjóði fyrirtækjum og íslenskum almenningi upp á dapurlega framtíðarsýn. Krónu í höftum og versnandi lífskjör. Hann segist ekki hafa íhugað að segja af sér eftir kosningaósigurinn í vor.

Samfylkingin tapaði ellefu þingmönnum í síðustu kosningum og fór úr því að vera stærsti flokkur landsins í að vera sá þriðji stærsti. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn hafi ætlað sér að gera of mikið á síðasta kjörtímabili og sett markið of hátt.

„Á vissan hátt gleymdum við okkur í erfiðum verkefnum og vanræktum að eiga samtal við þjóðina.“ Árni segist ekki hafa íhugað að segja af sér eftir kosningar. „Ég var nýkjörinn sem formaður og hafði haft tvo mánuði til að leiða flokkinn. Það var alltof skammur tími. Ég held að það sé alveg ljóst að það er óheppilegt að skipta um mann í brúnni svona stuttu fyrir kosningar.“ Árni segir að draumurinn um stóran jafnaðarmannaflokk lifi góðu lífi þrátt fyrir þennan kosningaósigur. „Menn gleymdu honum í aðdraganda síðustu kosninga og töldu það skipta engu máli að hafa stóran jafnaðarmannaflokk. Menn gleymdu sér í því að taka þátt í gamaldags fegurðarsamkeppni á vinstri væng íslenskra stjórnmála, þ.e. þessi fegurðarsamkeppni lítilla vinstriflokka sem gerði íslenska vinstrihreyfingu og umbótaöfl í landinu áhrifalaus um áratugi.“

Samstarf á vinstri vængnum

Eftir kosningar fór af stað umræða um mögulega sameiningu vinstri flokka, þá sérstaklega Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. „Þær hugmyndir hafa ekki komið til tals á milli flokkanna. Svoleiðis samstarf þarf þá að vera um málefni. Vinstri græn voru stofnuð vegna þess að menn vildu ekki taka þátt í jafnaðarmannaflokki. Samfylkingin vill ekki hætta því að vera jafnaðarmanna­flokkur.“ Árni segir enn fremur að ekki hafi komið til tals að mynda kosningabandalag í Reykjavík með öðrum vinstriflokkum fyrir næstu borgar­stjórnarkosningar.

Árni Páll er á sínu fyrsta kjörtímabili sem formaður Samfylkingarinnar.Mynd/Vilhelm
Aðildarferlið ekki dautt

Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var að gera hlé á aðildar­viðræðum Íslands við Evrópusambandið. Nýlega ákvað svo Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að leysa samninganefnd Íslands frá störfum. Árni segir að þrátt fyrir þetta sé aðildarferlið ekki dautt. „Auðvitað getur ríkisstjórnin sett málið í hlé og hún hefur ákveðið svigrúm til þess en ekki endalaust. Yfirlýsingar forystumanna ríkisstjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar voru þannig að þessir flokkar hafa ekkert umboð til þess að slíta viðræðum án þess að þjóðin fái fyrst að segja álit sitt á því. Ríkisstjórnin er mjög vaklandi í afstöðu sinni til aðildar. Það liggur fyrir að hún mun þurfa að leggja fyrir þingið stefnubreytingu ef hún ætlar að hætta aðildarferlinu.“

Engin framtíðarsýn

Svana Helen Björnsdóttir, for­maður Samtaka iðnaðarins, ritaði grein í Fréttablaðið á fimmtudag þar sem hún segir að íslensk fyrirtæki séu byrjuð að flýja land út af gjaldeyrishöftum. Árni segir nauðsyn­legt fyrir stjórnvöld að marka sóknarstefnu til fram­tíðar fyrir íslensk fyrirtæki. „Við munum ekki geta rekið áfram norrænt velferðarkerfi ef við höfum ekki norrænt atvinnulíf, norrænt viðskiptafrelsi og norrænt atvinnuskapandi samfélag,“ segir Árni. „Vandi þessarar ríkisstjórnar er að hún getur ekki horfst í augu við það að búa til einhverja sóknarstefnu fyrir þetta land. Hún er læst inni í eigin hindurvitnum og eigin ótta við umheiminn. Hún keppist við að loka dyrum þegar hún ætti að vera að opna þær. Stefnuleysi hennar er að ryðja okkar samkeppnishæfustu fyrirtækjum úr landi.“ 

Árni segir ráðaleysi einkenna störf ríkisstjórnarinnar. „Það vita það allir að íslensk króna getur ekki orðið grundvöllur sam­bærilegra lífskjara hér og í öðrum löndum um næstu áratugi. Það vita allir nema ríkisstjórnin og hún treystir sér ekki til að horfast í augu við þá staðreynd. Þess vegna setur hún allt í bið. Framsóknarflokkurinn er í þessari ríkis­stjórn til að ná fram skuldalækkun. Sjálfstæðis­flokkurinn er að reyna ná fram skatta­lækkunum. Þeir lofuðu hlutum sem eru algjörlega ósamrýman­legir. Annar talar í austur og hinn í vestur í þessu stjórnarsamstarfi. Við verðum afskaplega lítið vör við það hvert skalt stefna. Ég skynja að það er hart í ári hjá fólki. Fólk hefur minna á milli handanna en oftast áður frá hruni. Lífskjara­skerðingin er komin til að vera og fólk sér enga augljósa leið fram á við. Fyrir­heitin sem hafa verið gefin um skulda­niðurfellingar valda því að allt er í bið. Lánshæfismat landsins lækkar. Seðla­bankinn segist ekki geta lækkað vexti. Aðilar vinnumarkaðarins segjast ekki geta gert langtímasamninga.“

Árni segir að ríkisstjórnin hafi í raun slegið skjaldborg utan um ákveðna forréttindahópa. „Hagsmunir ákveðinna forréttindahópa að baki Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum eiga ekki að ganga framar hagsmunum þorra þjóðarinnar. Það er ekki hægt að sætta sig við að litlar klíkur sem eiga hagsmuni í því að hafa landið lokað og fá enga samkeppni ráði ferðinni.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Árni Páll Árnason.Mynd/Valgarður
Öllu snúið á haus

Árni segir að Samfylkingin sé til­búin að styðja aðgerðir ríkis­stjórnar­innar þegar kemur að skuldaniðurfærslu. Starfshópar á vegum ríkisstjórnarinnar sem vinna að tillögum í málinu eiga að skila af sér í lok nóvember. „Við förum ekki í málþóf til að stöðva framkvæman­legar tillögur sem ríkis­stjórnin kemur með. Við sögðum alveg skýrt fyrir síðustu kosningar að það væru hópar sem enn væru óbættir hjá garði. Það athyglis­verða er að tillögur ríkisstjórnarinnar, eða það sem forsætis­ráðherra og framsóknarmenn eru að gefa ádrátt um, virðast ekki vera meira en það sem við vorum að segja fyrir kosningar. Þegar Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknar, kemur núna og segir að það séu einhverjir hópar sem ekki hafi fengið eitthvað og þeir eigi að fá það núna en þeir sem eru í raunverulegum greiðsluvanda eigi ekkert að fá þá er auðvitað verið að snúa á haus öllu því sem Framsóknarflokkurinn sagði fyrir kosningar.“

Árni segir mikilvægt að gæta jafnræðis þegar kemur að skuldaniðurfærslu. „Það hefur verið mjög snúið að finna leiðir til að gera þetta svo að sanngirni og jafnræðis sé gætt. Við viljum ekki ósanngjarnar lausnir. Það eru auðvitað margar spurningar sem vakna þegar ríkisstjórnin gefur fólki ádrátt með þessum hætti. Hvað á að gera við einstakling sem er með verðtryggð lífeyrisréttindi og verðtryggðar skuldir? Á að laga forsendubrestinn á skuldahliðinni en leyfa honum að njóta forsendubrestsins á eignahliðinni? Hvað á að gera við leigjendur sem urður fyrir forsendubresti þegar verðtryggð leiga hækkaði? Svona má lengi telja og það hefur aldrei verið útfært af framsóknarmönnum. Við munum ekki styðja og við munum ekki geta sætt okkur við aðgerðir sem fela í sér að almennt launafólk beri herkostnaðinn af þessari ævintýra­ferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×