Viðskipti innlent

Rannsókn á skipafélögunum gæti tekið mánuði

Jón Júlíus Karlsson skrifar

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins (SE) á mögulegu ólöglegu samráði og hugsanlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu hjá Eimskip, Samskip og ýmsum dótturfélögum, gæti tekið vikur og jafnvel mánuði. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SE, segir að ekki sé hægt að áætla á þessu stigi hversu langan tíma rannsóknin muni taka. Það ráðist af fjölmörgum þáttum í rekstri málsins.



Samkeppniseftlitið gerði húsleit hjá Eimskip og Samskip, og einnig hjá dótturfyrirtækjum, í gær og tók afrit af gögnum sem gætu varpað ljósi á það hvort fyrirtækin hafi gerst brotleg við samkeppnislög. Páll Gunnar segir að SE hafði ákveðið að ráðst í aðgerðina eftir að hafa fengið sterkar vísbendingar um ólöglegt samráð.

Páll Gunnar Pálsson

„Nú tekur við að vinna úr gögnunum og það mun taka okkur nokkurn tíma,“ segir Páll Gunnar í samtali við Vísi. „Rannsókninni er ætlað að leiða í ljós hvort að vísbendingar um hugsanlegt ólöglegt samráð eigi við rök að styðjast. Það liggja til grundvallar vísbendingar sem leiddu til þess að við réðumst í þessa aðgerð.“



Páll Gunnar vildi ekki staðfesta hvenær rannsókn hefði hafist. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þá hefur SE undirbúið aðgerðirnar í um eitt ár hið minnsta sem ráðist var í hjá Eimskipi, Samskipum og dótturfélögum þeirra í gærmorgun.



Starfsmenn SE hafa haft samband við fulltrúa samkeppnisaðila í geiranum til að afla gagna og upplýsinga um meint brot fyrirtækjanna og hófst sú eftirgrennslan sem áður segir fyrir um ári.



Páll Gunnar vildi ekki tjá sig sérstaklega um samstarfsvilja fyrirtækjanna um að láta gögn af hendi en sagði að leyst hefði verið úr öllum málum hvað það varðaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×