Innlent

Sáttasemjari stunginn með hnífi

Elimar Hauksson skrifar
Fimm ökumenn voru teknir úr umferð vegna gruns um ölvunarakstur
Fimm ökumenn voru teknir úr umferð vegna gruns um ölvunarakstur
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning á miðnætti um að maður hefði verið stunginn með hnífi í Austurstræti. Sjónarvottar sögðu að maðurinn hafi reynt að stilla til friðar í átökum tveggja manna og dró annar þeirra upp hníf og stakk sáttasemjarann í lærið.

Sá særði var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og er árásarmaðurinn enn ekki fundinn. Síðastliðna tvo daga hafa því tvær tilkynningar um hnífsstungur borist til lögreglunnar en í fyrrinótt var maður stunginn í upphandlegg við Miðbakka í Reykjavík.

Klukkan fjögur í nótt voru lögregla og sjúkraflutningamenn send að skemmtistað við Ingólfsstræti í Reykjavík. Á staðnum hafði komið til átaka milli tveggja manna og annar þeirra rotast vegna höggs. Þegar sá vaknaði úr rotinu var lögreglan komin á staðinn og vildi hann ekkert frekar gera í málinu. Hinn maðurinn var handtekinn og bar hann, í yfirheyrslum, fyrir sig sjálfsvörn og var í kjölfarið frjáls ferða sinna.

Ölvun kom mikið við sögu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en alls voru fimm ökumenn, grunaðir um ölvun við akstur, teknir úr umferð. 



Nóttin hjá lögreglunni í öðrum umdæmum landsins var þó róleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×