Viðskipti innlent

Hagnaður N1 129 milljónir króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Rekstrartekjur N1 á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 voru 27.924 milljónir króna.
Rekstrartekjur N1 á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 voru 27.924 milljónir króna. Mynd/Valgarður Gíslason.
Hagnaður N1 hf. á fyrstu sex mánuðum ársins nam 129 milljónum samanborið við 624 milljón króna hagnað á sama tímabili 2012.

Rekstrartekjur N1 á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 voru 27.924 milljónir króna samanborið við 28.828 milljónir á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 566 milljónum króna samanborið við 1.266 milljónir á sama tímabili 2012.

Í lok síðasta árs var rekstur Bílanausts færður í sérstakt félag, sem var selt í maí á þessu ári. Sú breyting hafði að sögn félagsins nokkur áhrif á tekjur og framlegð N1 milli ára en óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir afskriftir.

„Gengisþróun íslensku krónunnar og þróun á heimsmarkaðsverði olíu hafði umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins í aprílmánuði 2013, en þá styrktist krónan verulega á skömmum tíma um leið og olíuverð lækkaði í dollurum talið. Afli á loðnuvertíð var mun minni en á vertíðinni árið áður, sem var sú besta í áraraðir, og hafði það áhrif á afkomu félagsins. Á fyrri helmingi þessa árs féll til kostnaður vegna undirbúnings skráningar félagsins á markað og vegna sölu á Bílanausti.

Áætlað er að á árinu 2013 verði rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir um 2,2-2,3 milljarðar kr. fyrir kostnað við ráðgjöf vegna sölu Bílanausts og fyrirhugaðrar kauphallarskráningar félagsins. Markmið félagsins er að hlutfallið milli rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir og framlegðar af vörusölu, eins og þessir liðir koma fram í uppgjörum félagsins, verði á bilinu 27-30%. Félagið hefur jafnframt mótað stefnu varðandi fjármagnsskipan félagsins og arðgreiðslur sem gerir ráð fyrir að a.m.k. 50% af hagnaði ársins verði greidd til hluthafa og að eiginfjárhlutfall félagsins verði um 40%,“ ,“ segir í tilkynningu frá félaginu vegna fjárhagsuppgjörs fyrstu sex mánuði 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×