Handbolti

Strákarnir í Kiel færðu Alfreð góða afmælisgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í THW Kiel unnu flottan sex marka útisigur á móti Evrópumeisturum HSV Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 32-26. HSV Hamburg hefur þar með tapað tveimur fyrstu deildarleikjum sínum á tímabilinu en Kiel er með fullt hús eftir þrjá leiki.

Marko Vujin var frábær í liði Kiel í dag en hann skoraði tíu mörk í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk en Aron Pálmarsson er að stíga upp úr meiðslum og komst ekki á blað.

Alfreð Gíslason hélt upp á 54 ára afmælið sitt í dag og fékk góða afmælisgjöf frá strákunum sínum. Kiel hefur misst fjóra sterka leikmenn frá því í fyrravetur en sýndi mikinn styrk í þessum leik.

Alfreð er greinilega enn á ný að búa til gríðarlega sterkt lið sem er til alls líklegt á þessu tímabili.

Hans Lindberg var markahæstur í liði HSV Hamburg með átta mörk en hann fór illa með góð færi þegar Hamburg var að reyna að vinna sig aftur inn í leikinn.

Andreas Palicka átti frábæra innkomu í mark Kiel í seinni hálfleik og átti mikinn þátt í því að Kiel gerði endanlega út um leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×