Handbolti

Ólafur Gústafsson og félagar nældu í Ofurbikarinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Flensburg vann þriggja marka sigur á Kiel, 29-26, í árlegum leik um Ofurbikarinn í þýska handboltanum sem fram fór í Berlín í kvöld.

Kiel hafði frumkvæðið fyrstu mínúturnar en um miðjan fyrri hálfleik tóku Ólafur Gústafsson og félagar í Flensburg völdin og létu þau raunar aldrei af hendi.

Lærisveinar Ljubomir Vranješ leiddu 15-12 í hálfleik en Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Kiel gáfust ekki upp. Þýskalandsmeistararnir náðu að minnka muninn í eitt mark 22-23 en nær komust þeir ekki. Þrjú mörk Flensburg í röð sáu til þess að sigurinn varð þess. Lokatölurnar 29-26 Flensburg í vil.

Aron Pálmarsson lék ekki með Kiel. Aron er að jafna sig eftir uppskurð sem hann gekkst undir fyrr í sumar.

Keppni í þýsku úrvalsdeildinni hefst um helgina og greinilegt að Flensburg mun veita Kiel harða keppni í baráttunni um stóru titlana í vetur. Kiel vann tvöfalt í fyrra og lagði Flensburg í úrslitum bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×