Handbolti

Strákarnir hans Dags óþekkjanlegir í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin töpuðu 23-28 á útivelli á móti MT Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en leikur refanna frá Berlín hrundi hreinlega í seinni hálfleiknum. Ólafur Gústafsson og félagar í Flensburg unnu á sama tíma 25-24 sigur á Frisch Auf Göppingen eftir frábæran endasprett.

Steffen Weinhold tryggði Flensburg 25-24 sigur á Frisch Auf Göppingen með því að skora sigurmarkið sex sekúndum fyrir leikslok. Ólafur Gústafsson skoraði eitt mark í leiknum en markahæstur í liðinu var danski hornamaðurinn Anders Eggert með sjö mörk.

Flensburg var einu marki undir í hálfleik, 12-13, og var fimm mörkum undir, 17-22, þegar aðeins fjórtán mínútur voru eftir af leiknum.

Füchse Berlin byrjaði leikinn á móti Melsungen ágætlega, var með frumkvæðið stærsta hluta fyrri hálfleiks og 12-10 yfir þegar 25 mínútur voru liðnar. Melsungen skoraði hinsvegar þrjú síðustu mörk hálfleiksins og var 13-12 yfir í hálfleik.

Eitthvað fór hálfleiksræða Dags illa í hans menn því Melsungen skoraði sex fyrstu mörk seinni hálfleiksins og stakk af. Melsungen náði mest níu marka forskoti en vann á endanum öruggan fimm marka sigur, 28-23.

Pavel Horak var markahæstur hjá Füchse Berlin með átta mörk. Michael Allendorf og Michael Müller skoruðu báðir sex mörk fyrir Melsungen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×