Handbolti

Heimir aðstoðar kvennalandsliðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson

Heimir Hallgrímsson er orðinn hluti af þjálfarateymi íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari Íslands, greindi frá þessu á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag. Heimir hefur þegar hafið störf og var viðstaddur landsleik Hollands og Danmerkur á dögunum. Þá hefur Sigurður Ragnar nálgast upptökur af nær öllum leikjum andstæðinga Íslands á þessu ári.

„Við erum núna í þeirri vinnu daglega að leikgreina andstæðinga okkar. Hittumst á fundi og förum yfir hverja þjóð sem við munum mæta," segir Sigurður Ragnar.

„Á meðan við spilum úti mun Heimir skoða mótherja okkar fyrir næstu leiki og gefa okkur skýrslu."

Sigurður Ragnar sagði á blaðamannafundinum að tilkoma Heimis væri mikill styrkur fyrir liðið. Hann væri einn færasti þjálfari landsins og styrkur hans lægi ekki síst á sviði leikgreiningar.

Ísland mætir Danmörku í vináttulandsleik ytra 20. júní. Tuttugu manna hópur fyrir leikinn var tilkynntur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×