Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Þrotabú gamla Landsbankans með sterk tök á þeim nýja

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Niðurnjörvaðar veðtryggingar eru á bak við skuld Landsbankans við þrotabú gamla Landsbankans í erlendri mynt. Þetta þýðir að eignarhald íslenska ríkisins á Landsbankanum er ótryggt því eignir hans eru veðsettar fyrir skuld sem hann getur ekki greitt. Þreifingar um endurfjármögnun skuldarinnar hafa staðið yfir með hléum í tvö ár án niðurstöðu.

Endurgreiðsluvandi Íslands birtist í því að íslenska hagkerfið stendur ekki undir nægilega mikilli framleiðslu í erlendum gjaldeyri til að standa undir skuldbindingum þjóðarbúsins í erlendri mynt á næstu árum. Alvarleiki þessa máls og endurgreiðsluvandi þjóðarbúsins kristallast vel í aðfaraorðum seðlabankastjóra í síðasta Fjármálastöðugleika, riti Seðlabankans, en Már Guðmundsson segir: „Í sem stystu máli felst vandinn í því að miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána."

Þrátt fyrir 5 ár frá hruni er hagkerfið enn að glíma við grimm eftirköst þess. Endurgreiðsluvandinn er einn slíkur vandi.

Stærsti einstaki hluti þessara skuldbindinga eru skuldir nýja Landsbankans við þrotabú þess gamla. Þetta er vegna skuldabréfs sem gefið var út við endurfjármögnun bankakerfisins sumarið 2009. Fjármálaráðuneytið undir forystu Steingríms J. Sigfússonar hafði milligöngu um hana.

Umdeildir samningar

Umdeilt er hversu góðir samningar þetta voru, fyrir íslenska ríkið sem eiganda Landsbankans. Bankinn þarf að greiða jafnvirði um 290 milljarða króna í erlendri mynt til þrotabús gamla bankans. Öll fjárhæðin er tryggð með sérgreindum veðum í eignum bankans, m.a. lánasöfnum. Við greiðslufall gæti þrotabú gamla bankans gengið beint að þessum eignum. Þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar að ganga frá uppgöri milli nýju bankanna og þeirra gömlu hefur verið gagnrýnd harkalega alla tíð. Sérstaklega þessi ráðstöfun varðandi skuldabréfið til LBI, þ.e gamla Landsbankans.

Afborganir vegna Landsbankabréfsins eru jafnvirði 60 milljarða króna í evrum árið 2015. Jafnvirði 74 milljarða þarf síðan að greiða af bréfinu 2016, 2017 og 2018.

Velta má fyrir sér hvort raunveruleg hætta sé á að íslenska ríkið missi eignarhald sitt á Landsbankanum vegna sérgreindrar veðtryggingar þess gamla í eignum bankans.  Nýi bankinn á ekki evrur til að borga alla þessa skuld og hætta er á því að hann nái ekki að afla sér tekna í erlendri mynt til að standa undir henni í fyrirsjáanlegri framtíð.

Með brattri og umdeildri fullyrðingu má því í raun segja að íslenska ríkið eigi Landsbankann (81%) aðeins á pappírnum. Erlendir kröfuhafar gamla bankans eiga hann í raun að óbreyttu. Þetta er málið í hnotskurn.

Icesave-málið ekki úr heiminum

Einn flötur þessa máls er sú staðreynd að stærstur hluti krafna gamla bankans eru forgangskröfur vegna Icesave-reikninganna. Það blasir því við að Icesave-málið er ekki úr sögunni þegar íslenskir hagsmunir eru annars vegar og óvíst hvenær þessir kröfuhafar fá heila fullnustu krafna sinna.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, benti á þetta í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu um helgina og sagði að forsetinn og núverandi forsætisráðherra hefðu sagt þjóðinni ósatt að Icesave-málið væri úr sögunni.

Aldrei var ríkisábyrgð á Icesave samkvæmt tilskipun 94/19, hins vegar eru kröfur vegna innistæðna lifandi og meðal þeirra eigna sem gætu þurft að standa undir greiðslunum er ríkisbankinn Landsbankinn. Málið er í þeim skilningi ekki úr sögunni, eins og Þorsteinn bendir á.  

Hjá slitastjórn Landsbankans fengust þau svör að slitastjórnin myndi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Sömu svör fást frá nýja Landsbankanum. 

Rétt að miða við formlegar viðræður

Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að nýi bankinn hefði sent þrotabúinu bréf til að semja, það hefur hins vegar legið fyrir frá 2011 að það þyrfti að semja um afborganir bréfsins og hefur verið greint frá þreifingum í þá veru frá 2011 án niðurstöðu. Páll Benediktsson, talsmaður slitastjórnar gamla Landsbankans, er ósammála þessari fullyrðingu í samtali við fréttastofu 365. Hann segir að rétt sé að miða við „formlegar viðræður“ í þessu samhengi og í eiginlegum skilningi séu þær ekki hafnar. Fyrir réttum tveimur mánuðum var endanlega gengið frá skuldabréfinu þótt efni þess og skilmálar hafi legið fyrir í fjögur ár.

Kristján Kristjánsson, talsmaður nýja Landsbankans, segir að bankinn eigi erlendan gjaldeyri til að standa undir afborgunum til ársins 2016. „Þetta er ekki panikk ástand í neinum skilningi," segir Kristján. Hann segir ekki ástæðu til að örvænta, bankinn hafi jafnframt þann valkost að fjármagna sig erlendis en ekki sé ástæða til að fara í slíkt strax vegna lakra kjara sem þar bjóðast í augnablikinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×