Viðskipti innlent

Hópuppsagnir algengar

Heimir Már Pétursson skrifar
Uppsagnir og lækkun launa hafa verið algengar á árunum 2008 til 2011.
Uppsagnir og lækkun launa hafa verið algengar á árunum 2008 til 2011.

Tíu prósent fyrirtækja í landinu gripu til hópuppsagna frá upphafi hruns í október 2008 til ársloka 2011 og 16 prósent fyrirtækja lækkuðu laun starfsmanna.

Þá afnam svipað hlutfall fyrirtækja greiðslur á óunninni yfirvinnu, samkvæmt rannsókn Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun Háskólans í Reykjavík og Viðskiptablaðið greinir frá í dag.

Launalækkanir fyrirtækjanna höfðu ekki gengið til baka í árslok 2011, en þá voru engu að síður um 90 prósent fyrirtækja farin að ráða til sín fólk á nýjan leik, sem bendir til að strax þá hafi þau farið að rétta úr kútnum. Laun yfirmanna voru oftar lækkuð en laun almennra starfsmanna, en launalækkanirnar námu allt frá tveimur prósentum til 23ja prósenta.

Þá kemur í ljós í rannsókninni að ríflega helmingur fyrirtækja, eða 56 prósent, drógu markvisst úr yfirvinnu á þessu tímabili og 36 prósent frystu ráðningar á nýju starfsfólki. Þriðjungur fyrirtækja minnkaði starfshlutfall hjá starfsfólki sínu og 35 prósent fyrirtækjanna greip til einstaklingsbundinna uppsagna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×