Viðskipti innlent

FT: Kröfuhafar tilbúnir til samninga við íslensk stjórnvöld

Financial Times segir að kröfuhafar geri sér grein fyrir þeim kosningaloforðum sem gefin voru í kosningabaráttunni í síðasta mánuði.
Financial Times segir að kröfuhafar geri sér grein fyrir þeim kosningaloforðum sem gefin voru í kosningabaráttunni í síðasta mánuði.
Financial Times greinir frá því í dag að erlendir kröfuhafar þrotabúa gömlu bankanna hafi vaxandi áhuga á því að ganga til samninga við íslensk stjórnvöld. Þeir séu jafnframt viðbúnir því að þurfa að gefa afslátt af kröfum sínum.

Blaðið fjallar um niðurstöðu kosninganna en báðir flokkarnir (Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur innsk. blm.) sem voru sigurvegarar kosninganna hafa sagt að kröfuhafarnir verða að gefa verulegan afslátt af kröfum sínum. Einnig er vitnað til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að þessi afsláttur gæti orðið allt að 75% af krónueignum þessara kröfuhafa hér á landi.

Financial Times ræðir við ónafngreindan heimildarmann sem er í góðu sambandi við kröfuhafana. Sá segir að kröfuhafarnir séu nú búnir að vera með eignir sínar læstar inni á Íslandi í fjögur ár og því þurfi greinilega að semja um þær við þá sem taka núna við völdum á Íslandi.

“Fjármálamarkaðir á alþjóðavísu munu fylgjast með þessum samningaviðræðum,” segir heimildarmaður blaðsins.

Fram kemur að vogunar- og hrægammasjóðir hafi keypt megnið af fyrrgreindum kröfum fyrir lítið af upphaflegu kröfuhöfunum. Þeim sé einkum umhugað að koma höndum yfir erlendar eignir þrotabúanna sem núna nema yfir 2.000 milljörðum kr.

Hvað eignir þeirra í íslenskum krónum varðar, sem eru um 450 milljarðar kr., er líklegt að í upphafi krefjist kröfuhafarnir að fá þær greiddar að fullu en þeir geri sér jafnframt grein fyrir þeim kosningaloforðum sem gefin voru í kosningabaráttunni í síðasta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×