Viðskipti innlent

Kjölfesta kaupir 30% hlut í Senu

Kjölfesta hefur keypt 30% hlutafjár í afþreyingarfyrirtækinu Senu ehf., ásamt dótturfélögum Senu. Kaupverðið er ekki gefið upp.

"Þessi fjárfesting er í takt við fjárfestingarstefnu Kjölfestu, við viljum byggja upp dreift eignarsafn og fjárfesta í fyrirtækjum með góða rekstrarsögu. Við erum stolt af því að fjárfesting í Senu er fyrsta verkefni Kjölfestu og teljum að það séu tækifæri í þeirri þróun sem er að eiga sér stað á afþreyingarmarkaðnum,"  segir Kolbrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kjölfestu í tilkynningu um málið.

Björn Sigurðsson framkvæmdastjóri Senu tekur í sama streng og telur það mikinn styrk fyrir félagið að fá Kjölfestu inn í eigendahópinn.

"Að fá fagfjárfesta eins og Kjölfestu inn í hluthafahópinn er mikil viðurkenning fyrir okkur á því starfi og árangri sem náðst hefur á liðnum árum. Við sjáum mörg tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar á afþreyingarmarkaði og teljum mikinn styrk í því að fá Kjölfestu með í það ferðalag," segir Björn.

Kjölfesta mun fá einn fulltrúa í stjórn Senu en stjórnarformaður félagsins verður eftir sem áður Jón Diðrik Jónsson.

Kjölfesta er félag í eigu 14 fagfjárfesta þar af 12 lífeyrissjóða. Tilgangur félagsins er að fjárfesta í meðalstórum og smærri fyrirtækjum á Íslandi og styðja þannig við sókn og framþróun íslensks atvinnulífs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×