Memphis Grizzlies jafnaði í nótt félagsmet þegar að liðið vann góðan sigur á San Antonio Spurs í NBA-deildinni, 92-90.
Þetta er 50. sigur Memphis á tímabilinu en það er félagsmetsjöfnun. Liðið hefur þar að auki unnið tólf leiki í röð á heimavelli.
Mike Conley tryggði Memphis sigur er hann keyrði upp að körfunni og skoraði þegar að 0,6 sekúndur voru eftir. Þá komst Memphis reyndar í fyrsta sinn yfir í leiknum síðan í fyrsta leikhluta.
Conley var öflugur á lokasprettinum og skoraði fimm síðustu stig Memphis og alls 23 í leiknum. Tony Parker skoraði 25 stig fyrir San Antonio sem er enn í efsta sæti Vesturdeildarinnar. Memphis er í því fimmta.
Utah vann Portland, 112-102, og komst þar með upp fyrir LA Lakers í áttunda sæti Vesturdeildarinnar. Haldist staðan óbreytt mun Lakers ekki komast í úrslitakeppnina í vor.
Al Jefferson skoraði 24 stig og Mo Williams setti niður sex þriggja stiga körfur í leiknum fyrir Utah.
Úrslit næturinnar:
Toronto - Detroit 98-108
Atlanta - Cleveland 102-94
Milwaukee - Charlotte 131-102
Memphis - San Antonio 92-90
Houston - Orlando 111-103
Minnesota - Boston 110-100
Utah - Portland 112-102
LA Clippers - Indiana 106-109

