Körfubolti

Stjörnumenn í oddaleik fimmta árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse er að fara spila sinn sjötta oddaleik í átta liða úrslitum á ferlinum.
Justin Shouse er að fara spila sinn sjötta oddaleik í átta liða úrslitum á ferlinum. Mynd/Valli
Það hefur verið mikil spenna í einvígum Stjörnumanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni karla í körfubolta undanfarin ár og það breytist ekki í ár. Keflavík jafnaði einvígið á móti Stjörnunni í gærkvöldi og liðin mætast því oddaleik í Garðabænum á fimmtudagsvöldið.

Þetta er fimmta árið í röð þar sem strákarnir hans Teits Örlygsson fara í leik upp á líf eða dauða í átta liða úrslitunum en þeir hafa fagnað sigri í slíkum leik undanfarin tvö ár.

Stjarnan og Keflavík munu því mætast annað árið í röð í oddaleik í átta liða úrslitum en í fyrra unnu Stjörnumenn eftir framlengdan leik.

Justin Shouse, Fannar Freyr Helgason og Jovan Zdravevski hafa verið með í öllum þessum fjórum oddaleikjum en Jovan verður væntanlega ekki með á fimmtudaginn eftir að hafa fengið brottrekstrarvillu í Keflavík í gær.

Sigurður Ingimundarson og Magnús Þór Gunnarsson, núverandi þjálfari og fyrirliði Keflavíkur, voru báðir með Njarðvíkurliðinu sem sló út Stjörnuna í oddaleik í Garðabænum í átta liða úrslitum 2010.

Keflavíkurliðið er í þessari stöðu þriðja árið í röð og hafa farið í framlengingu í oddaleik undanfarin tvö ár. Þeir töpuðu eins og áður sagði fyrir Stjörnunni í framlengingu í fyrra en unnu ÍR-inga eftir framlengingu 2011. Keflavík vann síðan Tindastól örugglega í oddaleik í átta liða úrslitum 2010.

Oddaleikir Stjörnunnar í 8 liða úrslitum 2009-2012

2009: Snæfell 73-71 Stjarnan

2010: Stjarnan 72-88 Njarðvík

2011: Grindavík 66-69 Stjarnan

2012: Stjarnan 94-87 (77-77) Keflavík

2013: Stjarnan - Keflavík (á fimmtudaginn)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×