Innlent

Vantrauststillagan enn í skoðun hjá Þór

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að vantrauststillaga á ríkisstjórnina sé enn í skoðun hjá sér. Það fari eftir því hvort að stjórnarskrármálið verði tekið fyrir á næstunni.

„Þetta ætti að skýrast á næstu dögum. Það eru einhverjar þreifingar um að koma stjórnarskrármálinu á dagskrá. Það eru í gangi plön um hvort og þá hvernig það verður hægt - þetta er allt í vinnslu," segir hann.

Þór lagði fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina á miðvikudaginn í síðustu viku en dró hana til baka á fimmtudag, eftir að í ljós komu formgallar á tillögunni, auk þess sem Þór var ósáttur við að stjórnarliðar hygðust koma málinu á dagskrá strax á fimmtudag, en ekki bíða til þriðjudags eins og Þór hafði lagt til.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudagskvöld að tillaga Þórs hefði verið vond og heimskuleg og ekki til þess fallin að vinna stjórnarskrármálinu framgang. Hefði hún verið samþykkt hefði stjórnarskrármálið verið ónýtt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×