Viðskipti innlent

Íslandsbanki stefnir Stanford - vilja 74 milljónir til baka

Kevin Stanford enn í vandræðum eftir íslenska hrunið.
Kevin Stanford enn í vandræðum eftir íslenska hrunið.
Íslandsbanki hefur stefnt breska tískukónginum Kevin Stanford en stefnan var birt í Lögbirtingablaðinu á dögunum þar sem ekki hefur tekist að birta honum stefnu þar sem heimilisfang hans er ókunnugt.

Það er í raun BYR sem stefnir Stanford, en Íslandsbanki tók bankann yfir á síðasta ári. Þess er krafist að Stanford greiði 50 milljón króna skuldabréf sem var gefið út í september árið 2007.

Greiða átti af láninu í nóvember árið 2009, ári eftir bankahrun. Þá átti hann að greiða um 64 milljónir í fimm greiðslum á 12 mánuðum.

Stanford greiddi aldrei lánið og er því þess krafist að hann greiði nú rétt rúmar 74 milljónir króna vegna skuldabréfsins.

Málið verður þingfest þann 13. mars 2013 í Héraðsdómi Reykjaness. Ef engin sátt næst í málinu fyrir þann tíma, eða Stanford mótmælir ekki málavöxtum með einhverjum hætti, má hann búast við útivistardómi svokölluðum, sem myndi þá líklega þýða að Íslandsbanki fær kröfu sína samþykkta.

Stanford hefur átt í verulegum vandræðum eftir að hann sogaðist inn í góðærið hér á landi fyrir hrun. Árið 2009 blasti við honum gjaldþrot. Árið 2011 birti The Observer, sunnudagsblað The Guardian, ítarlega úttekt á viðskiptaferli Kevin Stanford. Þar kom fram að hann hefði náð að klóra í bakkann og héldi hluta af tískuveldi sínu, meðal annars All Saints tískukeðjunni.

Stanford var áður í hópu auðugustu manna í breska tískugeiranum með auðæfi upp á 220 milljónir punda. Síðustu ár hefur hann ekki verið á lista.

Fleiri íslenskir bankar, eða þrotabú þeirra öllu heldur, hafa einnig stefnt Stanford, svo sem Singer & Friedlander (KSF) sem var dótturbanki Kaupþings í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×