Handbolti

Ástralir í neðsta sætinu á fimmta HM í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Síle tapaði öllum leikjunum í riðli Íslands á HM í handbolta á Spáni og tapaði með fjögurra marka mun í gær fyrir Svartfjallalandi í fyrsta leik liðsins í Forsetabikarnum. Í dag kom hinsvegar fyrsti sigurinn þegar Síle vann níu marka sigur á Ástralíu, 32-23, í leiknum um 23. sætið.

Síle-menn sluppu þar með við neðsta sætið á HM en Ástralir urðu aftur á móti að sætta sig við enn eitt stórtapið. Þetta var fimmta heimsmeistaramótið í röð þar sem Ástralir lenda í neðsta sætinu en Síle endaði í 22. sæti á sínu fyrsta móti fyrir tveimur árum.

Síle var sjö mörkum yfir í hálfleik, 17-10 og 23. sætið var í höfn fljótlega í seinni hálfleiknum. Emil Ludwig Feuchtmann og Patricio Martinez skoruðu báðir sex mörk fyrir Síle en Bevan Calvert var með átta mörk fyrir Ástrali.

Það er spilað um sæti í Forsetabikarnum í dag en engir aðrir leikir fara fram á mótinu. Svartfjallaland og Suður-Kórea spila um 21. sætið, Katar og Sádí-Arabía spila um 19. sætið og Argentína og Alsír berjast um 17. sætið í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×