Handbolti

HM 2013: Reynsluboltarnir með yfirhöndina í fótboltakeppninni

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Arnór Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson stóðu vaktina í vörninni hjá unga liðinu gegn þeim eldri í fótboltanum í Sevilla í morgun.
Arnór Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson stóðu vaktina í vörninni hjá unga liðinu gegn þeim eldri í fótboltanum í Sevilla í morgun. Vilhelm
Íslenska landsliðið í handbolta æfði í fyrsta sinn í keppnishöllinni í Sevilla í morgun en liðið kom til borgarinnar seint í gærkvöldi. Æfingin var snörp og markviss enda var hitastigið ekki hátt og halda þurfti hita á leikmönnum. Erlingur Richardsson, annar aðstoðarþjálfurum landsliðsins, stjórnaði upphitun áður en leikmenn fengu að spila fótbolta í stutta stund, ungir gegn gömlum, samkvæmt venju.

Gamlir höfðu betur að þessu sinni, 1-0, og sagði Róbert Gunnarsson að nú hæfist alvaran hvað varðar upphitunarfótboltann. Róbert stóð sig gríðarlega vel í markinu hjá „gamla" liðinu enda var hann öflugur á því sviði áður en hann snéri sér alfarið að handboltanum. Sverre Jakobsson, liðsfélagi Róbert í „gamla" liðinu fullyrti að leikurinn hefði endað 2-0 en úr þessu verður skorið á liðsfundi nú síðdegis.

Allir leikmenn íslenska landsliðsins tóku þátt á æfingunni en Stefán Rafn Sigurmannsson, sem er leikmaður Rhein Neckar Löwen í Þýskalandi, var á „séræfingu" þar sem hann er enn að jafna sig á meiðslum. Stefán Rafn, sem leikur í vinstra horninu, fékk högg á hælinn fyrir skömmu og er enn aumur og verður staðan á honum metin fyrir leikinn á morgun gegn Rússum.

Guðjón Valur Sigurðsson var með á æfingunni í morgun en hann hefur fundið fyrir eymslum í hásin á undanförnum dögum. Það var ekki að sjá að það væri að angra Guðjón á æfingunni.

Aron Kristjánsson þjálfari íslenska liðsins lagði áherslu á hraðaupphlaup, vörn og markvörslu á æfingunni í morgun. Skipt var upp í tvö lið sem léku á eitt mark þar sem að ýmsar útfærslur af varnarafbrigðum voru prófaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×