Viðskipti innlent

Tekur hálfan dag að reikna eitt gengistryggt lán

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Endurútreikningur gengistryggðra lána hefur tekið lengri tíma en bankarnir gerðu upphaflega ráð fyrir. Dæmi eru um að það hafi tekið starfsfólk hálfan daginn að reikna eitt lán.

Rúmar sex vikur eru nú síðan að bankarnir ákváðu að ráðast í endurútreikning á ólögmætum gengistryggðum lánum miðað við dóma hæstaréttar á síðasta ári og eru fyrstu niðurstöður útreikninganna farnar að berast viðskiptavinum

Arion Banki endurreiknar nú um tvö þúsund gengistryggð lán og birti um tvö hundruð viðskiptavinum niðurstöðu í desember og áætlar að birta tvö hundruð til viðbótar útreikninga í lok þessa mánaðar.

Landsbankinn er einnig byrjaður að leiðrétta þau fasteignalán sem bankinn telur falla undir dómana og er meðaltalslækkun höfuðstóls lánanna um 34 prósent, en lækkunin getur verið mjög mismunandi. Þá vildi bankinn ekki gefa upp hversu mörg lán verið er að reikna né hversu mörg er búið að reikna.

Íslandsbanki mun birta fyrstu niðurstöður útreikninga sinna um næstu mánaðarmót en samtals er bankinn að endurreikna um fjórtán þúsund gengistryggð lán en viðskiptavinir ERGO fjármögnunar sem eru um helmingur lánanna fá sínar niðurstöður um mánaðarmótin, en bankinn vildi ekki nefna neina meðaltals niðurfærslu.

Það hefur hins vegar reynst flókið og tímafrekt að endurreikna lánin þar sem allskyns skilmálabreytingar og greiðsluúrræði hægja á ferlinu.

Þannig henta sum lán engum ákveðnum reiknireglum og þurfa starfsmenn þá að reikna þau í höndunum sem getur tekið nokkrar klukkustundir eða allt upp í hálfan vinnudag og samkvæmt fulltrúum bankanna sem fréttastofa ræddi við í dag getur ferlið tekið ansi langan tíma.

Endurútreikningarnar eru því skammt á veg komnir og gætu dregist frekar þar sem enn er beðið niðurstöðu dómstóla um ýmis álitaefni sem geta haft áhrif á útreikningana.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×