Handbolti

Túnisbúar áfram á sigurbraut á HM á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Túnisbúar fengu tvo slæma skelli á móti Íslandi í Laugardalshöllinni milli jóla og nýárs en þeir eru aftur á móti spútnikliðið á HM í handbolta á Spáni. Túnisliðið fylgdi eftir sigri á Þjóðverjum með því að vinna Svartfellinga í dag.

Túnis tapaði naumlega fyrir Frökkum í fyrsta leik (27-30) en hefur síðan unnið tvo góða sigra, fyrst á Þýskalandi á sunnudag (25-23) og svo á Svartfjallalandi í dag, 24-22. Svartfellingar eru hinsvegar í slæmum málum enda búnir að tapa þremur fyrstu leikjum sínum á mótinu.

Svartfjallaland byrjaði vel og var 11-8 yfir þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Túnis skoraði þrjú síðustu mörk hálfleiksins og staðan var því 11-11 í hálfleik. Túnsliðið var síðan alltaf skrefinu á undan í seinni hálfleiknum.

Aymen Toumi og Abdelhak Ben Salah voru markahæstir í liði Túnis með fimm mörk hvor en Issam Tej og Amine Bannour skoruðu fjögur mörk. Fahrudin Melić skoraði mest fyrir Svartfjallaland eða sex mörk.

Hvít-Rússar fögnuðu sínum fyrsta sigri á mótinu þegar liðið vann Suður-Kóreu 26-20 en Kóreumenn hafa tapað öllum þremur leikjum sínum. Siarhei Rutenka skoraði tíu mörk fyrir Hvíta-Rússland í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×