Handbolti

Ernir Hrafn: Draumur að rætast að fá að vera í þessu liði

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ernir Hrafn Arnarson skoraði eitt mark á móti Dönum.
Ernir Hrafn Arnarson skoraði eitt mark á móti Dönum. Mynd/Vilhelm
Ernir Hrafn Arnarson fékk óvænt símtal hjá Aroni Kristjánssyni landsliðsþjálfara sl. sunnudagskvöld. Aron hafði ákveðið að taka Erni inn í landsliðshópinn eftir tvo fyrstu leiki Íslands í riðlakeppninni – og Ólafur Guðmundsson var settur út úr hópnum.

Ernir var ekki búinn að taka upp úr töskunum eftir langt ferðalag frá Íslandi til Düsseldorf í Þýskalandi þegar hann var rokinn af stað á ný áleiðis til Spánar. „Ég fékk aðeins lengra jólafrí hjá Emsdetten þar sem ég spila og ég var búinn að vera í flug- og lestarferðum þegar símtalið kom. Það var því ekkert annað að gera en að drífa sig í flug um nóttina frá Düsseldorf til Madrid, og síðan tók við löng lestarferð til Sevilla. Ég var því aðeins lúinn á fyrstu æfingunni á mánudagskvöld en ég kvarta ekki – það er mikill heiður að fá að taka þátt í þessu.

Ernir Hrafn er 26 ára gamall, örvhent skytta, og hann lék æfingaleikina gegn Túnis í lok desember og var síðan í æfingahópnum þar til Aron tilkynnti hvaða leikmenn hann valdi fyrir HM á Spáni.

„Það eru eflaust margir á Íslandi sem hafa ekki hugmynd um hver ég er, enda er það eðlilegt. Aron hefur sett mig í það hlutverk að leysa Ásgeir Örn Hallgrímsson af í 5-10 mínútur. Og ég þarf að standa mig og þá sérstaklega í varnarhlutverkinu. Á sama tíma þurfum við sem komum inn af bekknum að þora að taka ákvarðanir í sókninni," sagði Ernir en hann skoraði eitt mark gegn Dönum úr eina skotinu sem hann tók í leiknum. „Það var fínt að skora en leikurinn var ekki góður hjá okkur. Ég gerði mistök í vörninni með því að láta reka mig út af í tvær mínútur í fyrri hálfleik sem var ekki gott fyrir liðið."

Ernir Hrafn hefur gengið í gegnum „meiðslapakka" síðustu ár en er að ná fyrri styrk og bjartsýnn á framhaldið. „Samningurinn við Emsdetten rennur út í vor, við erum efstir í næstefstu deild, og stefnan er sett á að komast upp. Ég veit ekki um framhaldið hjá mér en vonandi styrkir það samningsstöðu mína að fá tækifæri hér á HM. Að vera í þessu liði er eitthvað sem ég hef látið mig dreyma um lengi," sagði Ernir Hrafn Arnarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×