Handbolti

HM 2013 | Túnis sló út Argentínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Túnis tryggði sér í dag sæti í 16-liða úrslitum HM í handbolta með fjögurra marka sigri á Argentínu, 22-18.

Sem stendur er Túnis í öðru sæti A-riðils en það gæti breyst eftir því sem líður á daginn.  En með úrslitunum er ljóst að Brasilía er öruggt áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Þýskaland er með sex stig, rétt eins og Túnis, en mætir Frökkum síðar í dag. Sigur í þeim leik tryggir Þjóðverjum sigur í riðlinum og sendir Túnis í þriðja sætið.

Ef Frakkar vinna hins vegar í þeim leik þarf að bíða eftir úrslitum í leik Svartfjallalands og Brasilíu í kvöld, til að sjá hver lokastaðan í riðlinum verður.

Það var lítið skorað í fyrri hálfleik í leiknum í dag en staðan að honum loknum var 7-6, Túnis í vil, sem náði svo að síga fram úr á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Abdelhak Ben Salah skoraði fimm mörk fyrir Túnis en markahæstur hjá Argentínu var Sebastian Simonet með fjögur mörk.

Argentína hafnaði í fimmta sæti í A-riðli og keppir því í Forsetabikarnum um 17.-24. sæti keppninnar.

Úrslit, staða og næstu leikir á HM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×