Handbolti

HM 2013: Danmörk vann | Ísland mætir Frakklandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myndir / Vilhelm Gunnarsson
Nú er ljóst að Ísland mun mæta heims- og Ólympíumeisturum Frakklands í 16-liða úrslitum HM í handbolta.

Leikurinn fer fram í Barcelona á sunnudag og hefst klukkan 19.15.

Þetta varð niðurstaðan eftir að Danmörk hafði betur gegn Makedóníu í lokaleik B-riðils í kvöld, 33-30. Ísland endar í þriðja sæti riðilsins.

Fyrirfram bjuggust flestir við því að Ísland myndi sleppa við Frakka í 16-liða úrslitunum, ef strákarnir ynnu Katar og Danir hefðu betur gegn Makedóníu - sem varð svo raunin.

Hins vegar tapaði Frakkland heldur óvænt fyrir Þýskalandi fyrr í dag og þeir þýsku hirtu um leið toppsæti A-riðils. Þá var ljóst í hvað stefndi fyrir strákana okkar.

Makedónía stóð reyndar lengi vel í Dönum og gott betur. Staðan í hálfleik var 14-13, Makedóníu í vil, sem hélt frumkvæðinu lengi vel í síðari hálfleik.

En leikurinn breyttist þegar stundarfjórðungur var eftir og Danir gáfu í. Þeir skoruðu fimm mörk í röð og létu þá forystu aldrei af hendi.

Allir útileikmenn Dana nema einn komust á blað í dag og báðir markverðir fengu að spila. Markahæstur var Mikkel Hansen með fimm mörk en hjá Makedóníu skoruðu  Lazarov-bræðurnir Kiril og Filip Lazarov fimm mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×