Lífið

Með mikla matarást

Ása Ottesen skrifar
Menningarstjóri og beikonunnandi er einn þeirra sem standa fyrir Reykjavík Beikon Festival sem haldin verður í þriðja sinn 7.september.
Menningarstjóri og beikonunnandi er einn þeirra sem standa fyrir Reykjavík Beikon Festival sem haldin verður í þriðja sinn 7.september. FRÉTTBLAÐIÐ/GVA
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir Reykjavík Bacon Festival sem verður haldin í þriðja sinn á Skólavörðustíg 7. september.



Árni Georgsson, einn af stofnendum hátíðarinnar, heldur hana í samstarfi við vini sína sem koma úr öllum áttum og kalla sig íslenzka beikon bræðralagið. „Það er gaman að segja frá því að í hópnum sem kemur að hátíðinni eru læknar, lögfræðingar og kennarar. „Við komum úr öllum áttum en eigum það sameiginlegt að vera með mikla matarást og erum sérstaklega hrifnir af beikoni.

Beikon er án landamæra, ég held að flestir séu hrifnir af því,“ segir Árni, sem starfar sjálfur sem menningarstjóri.



„Hugmyndin að hátíðinni kemur frá Bandaríkjunum, en þar eru beikonhátíðir mjög vinsælar. Vinir okkar frá Iowa halda stærstu beikonhátíð í heimi, sem nefnist Blue Ribbon Bacon Festival, og þegar þeir ákváðu að koma í stutta heimsókn til Íslands árið 2011 fannst okkur tilvalið að koma þeim á óvart og halda litla beikonhátíð í tilefni þess. Sú hátíð heppnaðist gríðarlega vel og nú virðist þetta ætla að verða árlegur viðburður hér á landi,“ segir Árni.



Rúmlega tíu þúsund manns mættu á hátíðina í fyrra til að gæða sér á beikoni í hinum ýmsu útfærslum. Í ár verður boðið upp á enn fleiri útfærslur með gæðabeikoni frá Ali Bacon og verður boðið upp á sérstaka rétti fyrir börnin.



 „Einnig fengum við til liðs við okkur veitingastaði í miðbænum sem ætla að vera með rétti á matseðlinum innblásna af beikoni í tilefni dagsins. Þetta er fyrst og fremst til þess að hafa gaman af, við sem stöndum að þessu erum allir miklir vinir og í stað þess að hittast og prjóna lopapeysur, þá reykjum við beikon,“ segir hann að lokum glaður í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.