Sport

Ásgeir: Átti ekki lengur von á Ólympíusæti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson, skotmaður úr Skotfélagi Reykjavíkur, segist næstum hafa verið búinn að gefa upp vonina um keppnisrétt á Ólympíuleikunum í London.

Skotíþróttasambandi Íslands bárust í dag þær fréttir að Ásgeiri hefði verið úthlutað kvótaplássi í frjálsri skammbyssu karla á Ólympíuleikunum í London. Ásgeir verður um leið fyrsti Íslendingurinn sem keppir í skammbyssugrein á leikunum.

„Ég átti í rauninni ekki lengur von á þessu. Ég bjóst við svari í síðasta lagi fyrir einni til tveimur vikum. Ég vissi að það væri pínu möguleiki en ekki mikill. Ég var eiginlega búinn að afskrifa þetta," segir Ásgeir sem hefur þrátt fyrir allt haldið sér í góðu formi.

„Ég hef haldið mér vel við og var sem betur fer ekki kominn í pásu. Ég æfi kannski meira núna, verð harðari við mig. Æfingarnar undanfarið hafa verið aðeins styttri til að nýta góða veðrið," segir Ásgeir sem mun einnig keppa í loftskammbyssu.

Ásgeir hafði náð Ólympíulágmarki í loftskammbyssu en þar sem takmörkun er á fjölda keppenda á leikunum dugði lágmarkið ekki til. Ekki fyrr en honum var úthlutað kvótaplássinu í frjálsri skammbyssu í dag.

Ásgeir bætist því í sístækkandi hóp íslenskra Ólympíufara.


Tengdar fréttir

Ásgeir á Ólympíuleikana eftir allt saman

Ásgeir Sigurgeirsson, skotmaður úr Skotfélagi Reykjavíkur, keppir á Ólympíuleikunum í London sem hefjast 27. júlí. Ásgeiri var úthlutað aukaplássi á leikana í dag. Frá þessu er greint á heimasíðu Skotfélags Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×