Viðskipti innlent

Segja lánin ekki fela í sér persónulegar ábyrgðir

ÞJ skrifar
Aðalmeðferð í máli BGE gegn Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs, fór fram í gær. 
Fréttablaðið/Anton
Aðalmeðferð í máli BGE gegn Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs, fór fram í gær. Fréttablaðið/Anton
Mál þrotabús BGE eignarhaldsfélags gegn Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Baugs Group, var tekið til aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Málið snýst um lán sem Gunnar, ásamt öðrum starfsmönnum, fékk til þess að kaupa hlutabréf í Baugi í gegnum BGE.

BGE var stofnað í nóvember 2003 í þeim tilgangi að halda utan um kaupréttarsamningakerfi starfsmanna Baugs.

Kerfið, sem var hannað af KPMG, virkaði þannig að Kaupþing lánaði Baugi, gegn veði í hlutabréfum félagsins, og Baugur lánaði féð síðan áfram til starfsmanna Baugs. Starfsmennirnir fengu lánað fyrir hlutabréfum sem þeir máttu svo selja á ákveðnum tímum.

Starfsmennirnir halda því fram að lánin feli ekki í sér persónulegar ábyrgðir. Þessu er skiptastjóri þrotabúsins ósammála.

Á Vísi.is kemur fram að fjörutíu starfsmenn Baugs hafi gert slíka samninga, en skiptastjóri BGE ákvað að láta reyna á innheimtu fimmtán stærstu skuldaranna.

Meðal stærstu skuldara voru, auk Gunnars, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, þá aðaleigandi Baugs, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Stefán H. Hilmarsson.

Þeir fjórir skulduðu samanlagt rúman milljarð króna en heildarlánin voru 3,4 milljarðar.

Niðurstöðu í málinu má vænta innan nokkurra vikna.

Tekið skal fram að Jón Ásgeir er eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda 365 sem gefur meðal annars út Fréttablaðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×