Viðskipti innlent

Mynd Baltasars malar gull í Hollywood

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Baltasar Kormákur.
Baltasar Kormákur.
Allt stefnir í að Hollywood kvikmynd Baltasars Kormáks, Contraband, verði tekjuhæsta myndin í Bandaríkjunum um helgina, samkvæmt mælingu vefsins boxoffice.com. Áætlar vefurinn að tekjur af myndinni muni nema 24 milljónum, jafnvirði um þriggja milljarða króna.

Kvikmyndin, sem er endurgerð íslensku myndarinnar Reykjavík-Rotterdam, sem Óskar Jónasson leikstýrði, skartar Hollywood-stjörnunum Mark Wahlberg og Kate Beckinsale í aðalhlutverkum og var frumsýnd í Bandaríkjunum á föstudag. Myndin fékk langmesta aðsókn í bandarískum kvikmyndahúsum á föstudag og námu tekjur af sýningu hennar þá 8,7 milljónum dala, jafnvirði rúmlega milljarði króna.

Contraband hefur fengið misjafnar viðtökur hjá gagnrýnendum, en það virðist ekki hafa áhrif á miðasölu því Boxoffice.com áætlar að kvikmyndin muni skila alls 24 milljónum dollara í tekjur yfir helgina, en næst tekjuhæsta mynd helgarinnar samkvæmt Boxoffice.com er Beauty and the Beast með 21,5 milljónir dollara í tekjur og í þriðja sæti er Mission: Impossible - Ghost Protocol með ellefu og hálfa milljón dollara.

Miðað við þetta hefur kvikmyndin nú þegar aflað tekna til að standa straum af upphaflegum kostnaði því kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir kostnaði upp á 25 milljónum dollara. Framleiðslukostnaður mun þó aðeins hafa farið fram úr áætlun því heildarframleiðslukostnaður er talinn nema 41 milljón dollara. Útlit er þó fyrir miðað við þessa miklu aðsókn á frumsýningarhelginni að kvikmyndin muni fljótlega ná upp í þennan kostnað og gott betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×