Innlent

Rofar til í vatnsmálum í Reykholti

Gengið hefur verið frá öllum nauðsynlegum leyfum frá einkaaðilum vegna lagningar nýrrar vatnsveitu í Reykholtsdal. Gott vatnsból hefur fundist og áætlað að er að ljúka framkvæmdum næsta sumar.

Orkuveita Reykjavíkur hefur um nokkurra missera skeið unnið að úrbótum í vatnsmálum í Reykholti. Í mestu þurrkatíð undanfarinna sumra hefur þurft að keyra vatni í vatnstank við þéttbýlið á sögustaðnum. Til bráðabirgða var byggðin í Reykholti tengd vatnsveitu neðar í dalnum á meðan mikil vinna hefur farið í að finna gott vatnsból. Jarðhiti er víða í dalnum og sums staðar skipulögð frístundabyggð. Því hefur ekki verið nóg að finna gjöfula strauma, heldur þurfa gæðin að vera næg og vatnsbóli má ekki stafa ógn af fyrirhugaðri byggð.

Gott vatnsból fannst loks við Rauðsgil í landi Steindórsstaða. Samið hefur verið við landeigendur um vatnstöku og við eigendur nærliggjandi jarða um legu 4,4 kílómetra langrar aðveituæðar til Reykholts. Einnig þarf að fá leyfi Vegagerðarinnar auk samráðs við eigendur veiðiréttinda og Veiðimálastofnun. Sótt hefur verið um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins.

Hönnun nýju vatnsveitunnar er á lokastigi og má reikna með að framkvæmdir verði boðnar út á næstu vikum. Ekki er ljóst hversu mikið verður hægt að vinna við veituna í vetur en stefnt er að því að taka nýja vatnsveitu í Reykholti í notkun fyrir mitt næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×