Viðskipti innlent

Samfylkingin vill losna við Víkingaheima og Íslending

Íslendingur í Víkingaheimum.
Íslendingur í Víkingaheimum.
Samfylkingin í Reykjanesbæ vill selja Víkingaheima í stað þess að selja hlut í HS veitum að því er greinir frá í bókun frá flokknum og Víkurfréttir greina frá.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Þar er gert ráð fyrir að 452 milljón króna halli verði á bæjarsjóði, það er A og B hluta. Bærinn skuldar þá 22 milljarða í lok árs, en ætla má að stórfelld eignasala liðinna ára verði til þess að daglegur rekstur sveitarfélagsins nái loks jafnvægi, að því er greint er frá á í bókun Samfylkingarinnar.

Flokkurinn er sammála því að Reykjanesbær ætti að selja Magma skuldabréfið svokallaða vegna bágrar fjárhagsstöðu bæjarfélagsins, sem hefur verið undir eftirliti Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, undanfarin ár. En Samfylkingin þvertekur fyrir að selja hlut í HS Veitum eins og fyrr greinir frá.

Þess í stað vill Samfylkingin losa bæinn undan ábyrgð á rekstri Víkingaheima, „sem eingöngu hefur fylgt kostnaður fyrir samfélagið og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram," eins og segir í bókun flokksins.

Víkingaheimar er safn í Reykjanesbæ sem tekur á nýstárlegan hátt fyrir þátt Íslands í landafundum Norður-Ameríku. Þar má finna víkingaskipið Íslending sem sigldi til Ameríku sumarið 2000, og sýningu sem Smithsoninan stofnunin í Bandaríkjunum gaf til Víkingaheima.

Hægt er að lesa nánar um bókun Samfylkingarinnar á vef Víkurfrétta.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×