NBA-körfuboltamaðurinn Derrick Rose er á fullu í endurhæfingu eftir að hafa slitið krossband í fyrsta leik Chicago Bulls í úrslitakeppninni í vor. Meiðslin hafa reynt mikið á andlegu liðina hjá þessum besta leikmanni NBA-deildarinnar 2010-11 og það kom vel í ljóst þegar hann brotnaði á kynningarfundi á nýju skónum hans.
Rose gat hvorki leynt tilfinningum sínum né haldið aftur af tárunum þegar Adidas sýndi dramatískt myndband um baráttu kappans við að komast aftur inn á körfuboltavöllinn. Það er hægt að sjá brot af myndbandinu og viðbrögð Rose með því að smella hér fyrir ofan.
Derrick Rose var staddur á kynningu Adidas á nýju skónum hans sem heitir The Adidas Rose 3. Hann er ekki þekktur fyrir að sýna miklar tilfinningar utan vallar og er afar fagmannlegur í allri sinni hegðun innan vallar. Það vakti því mikla athygli bandarískra fjölmiðla þegar Rose gaf svona færi á sér.
Rose gat í raun ekki skýrt ástæður þess að hann brotnaði niður en hann hefur auk meiðslanna verið að tjá sig um kennaraverkfall í Chicago og þykir það mjög miður að sjá ungdóm Chicago hangsa á götunum þegar þeir ættu að vera í skólunum að leggja grunninn að betri framtíð.
