Handbolti

Bjarki Már: Baráttan er á milli okkar Stefáns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarki Már var í æfingahópnum fyrir ÓL í London en var ekki valinn í lokahópinn.
Bjarki Már var í æfingahópnum fyrir ÓL í London en var ekki valinn í lokahópinn. Mynd/Stefán
Bjarki Már Elísson, markahæsti leikmaður N1-deildar karla, mætti á fyrstu æfingu karlalandsliðsins í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Kópavogsbúinn hefur skorað 83 mörk í leikjunum tólf og klár í slaginn fyrir landsleikina tvo gegn Túnisum í kvöld og á morgun.

„Mér líst mjög vel á þetta. Ég er búinn að vera að undirbúa mig síðustu daga. Ég er kominn í gírinn," segir Bjarki Már.

„Það er mjög gaman fyrir áhugamanninn á Íslandi að mæta á æfingar með atvinnumönnunum. Það er auðvitað mikil spenna og ég hlakka til," segir Bjarki Már, sem hefur farið rólega í kjötið yfir hátíðarnar.

„Ég taldi ofan í mig sneiðarnar svo þetta færi ekki upp fyrir ósæmileg mörk," sagði Bjarki Már, sem hefur mestar áhyggjur af saltmagninu í kjötinu. „Ég reyndi að borða sem minnst af því svo það bindi ekki allan vökvann inni þegar maður byrjar að hreyfa sig," sagði Bjarki Már sem æft hefur stíft frá því að leik lauk í deildarkeppninni hér heima um miðjan mánuðinn.

Bjarki Már er í 23 manna landsliðshópi Arons Kristjánssonar. Ljóst er að aðeins 16 leikmenn verða í lokahópnum og samkeppnin um stöðu vinstri hornamanns er hörð. Þar hittir Bjarki Már fyrir Guðjón Val Sigurðsson, leikmann Kiel, og Stefán Rafn Sigurmannsson hjá Rhein-Neckar Löwen.

„Það þarf engan sérfræðing til að sjá að Guðjón Valur mun spila þetta allt saman. Á meðan hann er heill er hann langbesti kosturinn í stöðunni. Stefán Rafn hefur staðið sig vel en ég tel að hann sé ekki kominn lengra en ég í þessari grein. Að mínu mati stendur baráttan á milli okkar tveggja," segir Bjarki Már sem stefnir á atvinnumennsku á næsta tímabili.

„Ég hef aðeins verið í sambandi við umboðsmenn, fengið nokkrar fyrirspurnir að utan en ekkert heyrt meira. Stefnan er svo sannarlega sett út á næsta tímabili. Það er klárt en ég þarf að standa mig áfram vel hérna heima."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×