Skoðun

Misskilningur verður blaðagrein

Sigurður Erlingsson skrifar
Grein Hreiðars Más Hermannssonar í Fréttablaðinu þann 18. desember, „Þegar viðskipti verða fjárfesting", byggir að miklu leyti á þeim grundvallarmisskilningi að eignir Íbúðalánasjóðs eigi að leigja út á kostnaðarverði.

Það er rangt, því slíkt hefur aldrei staðið til. Leiguverð Íbúðalánasjóðs fylgir markaðsverði á leigumarkaði, sem byggt er á upplýsingum úr þúsundum þinglýstra leigusamninga.

Atriði í greininni sem þarfnast leiðréttingar lúta aðallega að eftirfarandi:

Ÿ Íbúðalánasjóður er ekki gjaldþrota.

Ÿ Íbúðalánasjóður hefur þegar heimild til að leigja út íbúðir. Stofnun félags er því ekki forsenda þess.

Ÿ Leiguíbúðir Íbúðalánasjóðs eru og verða leigðar út á markaðsverði – ekki kostnaðarverði.

Ÿ Í 750 af 880 leiguíbúðum sjóðsins búa fjölskyldur eða einstaklingar sem bjuggu í íbúðunum við nauðungarsölu.

Ÿ Nýtt leigufélag verður tímabundið í eigu Íbúðalánasjóðs en samkvæmt lögum verður rekstur þess og stjórn fullkomlega aðskilin frá sjóðnum.

Fullnustueignir Íbúðalánasjóðs eru hlutfallslega flestar á Suðurnesjum, en þar á sjóðurinn tæp 8% íbúða á svæðinu, ekki 20% eins og dæmisagan í greininni tiltekur.

Íbúðalánasjóður hefur þurft að leysa til sín margar eignir frá hruni og 2.193 íbúðir eru nú í eigu sjóðsins. Unnið er faglega og lögum samkvæmt að því að leysa þann vanda fólks sem hægt er að leysa og bjarga þeim verðmætum sem hægt er að bjarga. Eignir eru skipulega undirbúnar og skráðar í sölu í gegnum fasteignasölur landsins, án þess að vera merktar sérstaklega. Við sölu eignanna er Íbúðalánasjóður ekki eingöngu að gæta eigin hagsmuna, því hærra söluverð eignar þýðir lægri skuld þess sem missti hana.

Íbúðalánasjóður gerir sitt ýtrasta til að gæta jafnræðis og meðalhófs í öllum aðgerðum. Ómögulegt er að þóknast öllum sjónarmiðum, sem sést best á því að sjóðurinn hefur undanfarið fengið jöfnum höndum gagnrýni fyrir að leigja of lítið, að leigja of mikið, að selja of hratt og að selja of hægt.

Eina svar starfsmanna Íbúðalánasjóðs við þessari gagnrýni úr öllum áttum er að ástunda fagmannleg og hlutlæg vinnubrögð við þetta verkefni, hér eftir sem hingað til.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×