Skoðun

Öfundsýki út í yfirburðafólk

Bergur Hauksson skrifar
Mikið hefur verið fjallað um ráðningu starfsmanns hjá Þróunarstofnun Íslands. Það er undarlegt í þessu landi að ef stjórnmálamaður er ráðinn í opinbera stöðu þá eru alltaf einhverjir hælbítar sem rísa upp og segja að um klíkuráðningu sé að ræða.

Eins og forstöðumaður stofnunarinnar hefur bent á þá þurfti mann með reynslu úr íslenskri stjórnsýslu. Er erfitt að skilja það? Það er ekki þörf á fólki með reynslu á sviði þróunarhjálpar, lýðfræði, lýðheilsufræði, læknisfræði eða hjúkrun. Það er þörf á fólki með reynslu úr íslenskri stjórnsýslu í Afríku. Hvað er svo flókið við þetta að fólk skilji þetta ekki? Eru Íslendingar almennt ekki vel gefnir?

Fólk ætti að kynna sér söguna. Þetta er ekki eina dæmið um að reynsla úr stjórnsýslunni komi sér vel og Þróunarstofnun Íslands þurfi á slíku fólki að halda. Sighvatur Björgvinsson var ráðinn forstöðumaður stofnunarinnar og hann réð Stefán Jón Hafstein, báðir með reynslu úr stjórnsýslunni.

Hvað getur fólk lært af þessu? Það er mikil þörf í Afríku fyrir fólk með reynslu úr íslenskri stjórnsýslu.

Þetta er orðið óþolandi að stjórnmálamenn verði stöðugt fyrir árásum vegna eðlilegra ráðninga. Hvað sagði ekki Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, þegar sonur hans var skipaður í nefnd á vegum ráðuneytis hans og einhverjir voru að gagnrýna það? Ef ég man rétt þá var það á þá lund að hann frábað sér slíkan málflutning og sagði einnig að sonur hans væri virtur líffræðingur og ætti því allan rétt á að starfa að málinu. Vill fólk að ráðherra gangi fram hjá besta manninum einungis vegna þess að hann er sonur hans? Hvernig yrði þá land okkar ef vegna tengsla yrði að ganga fram hjá bestu mönnunum?

Viljum við að Afríka missi af því að læra um íslenska stjórnsýslu? Hún hefur breyst töluvert frá því að Sighvatur og Stefán voru í henni, orðin mikið siðvæddari, opnari og betri að öllu leyti. Ekki má Afríka missa af þeirri reynslu.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×