Skoðun

Valkostur í stjórnarskrármálinu

Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í kjölfar búsáhaldabyltingar, snemma árs 2009, varpaði ég fram þeirri spurningu hvort það væri sanngjörn ályktun að lýðveldisstjórnarskráin hefði brugðist íslensku samfélagi og hvort það væri óhjákvæmilegur þáttur í viðreisn Íslands að byrjað væri frá grunni við mótun íslenskrar stjórnskipunar.

Sjálfur leitaðist ég við að svara spurningunni á þá leið að hollusta við grunngildi núverandi stjórnarskrár væri mikilvægari en setning nýrrar og áferðarfallegri stjórnarskrár. Þótt yfirvegaðar breytingar á afmörkuðum atriðum stjórnarskrárinnar væru af hinu góða (og það væru vissulega atriði í íslenskri stjórnskipun sem færa mættu til betri vegar) gegndi öðru máli um „stjórnskipulega óvissuferð" á umbrotatímum. Slíkri vegferð kynni að lykta með því að stjórnarskránni yrði í heild sinni varpað fyrir róða með ófyrirséðum afleiðingum.

Nú, rúmlega þremur árum síðar eftir birtingu framangreindrar greinar, liggur fyrir frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem felur í sér breytingar á velflestum ef ekki öllum meginatriðum íslenskrar stjórnskipunar, jafnvel á sumum sem ekki hafa valdið sérstökum ágreiningi. Þótt ætluð áhrif breytinganna, sem sumar hverjar eru róttækar, hafi lítt verið könnuð og hin nýja stjórnskipun sé í raun þokukennd þegar litið er á frumvarpið í heild, hefur verið ákveðið að frumvarpið verði borið undir atkvæði þjóðarinnar 20. október nk. í ráðgefandi atkvæðagreiðslu. Þar sem vilji núverandi ríkisstjórnar virðist standa til þess að frumvarpið verði samþykkt fyrir næstu kosningar til Alþingis getur það alls ekki talist fjarstæðukennt að frumvarp Stjórnlagaráðs verði, með eða án einhverra breytinga, samþykkt sem stjórnskipunarlög á næsta kjörtímabili. Það er því löngu tímabært að frumvarp Stjórnlagaráðs sé tekið og rætt af fullri alvöru.

Eins og stjórnarskrármálið liggur fyrir á þessari stundu kann svo að virðast að valkostirnir séu aðeins tveir: Að sætta sig við óbreytta stjórnarskrá og stjórnskipulega stöðnun eða samþykkja frumvarp stjórnlagaráðs og þá hugsanlega með einhverjum breytingum. Þá leið að nálgast endurskoðun stjórnarskrárinnar með meiri varkárni og yfirvegun en leiðir af frumvarpi Stjórnlagaráðs hefur vissulega borið á góma með almennum hætti. Að mínum dómi hefur það hins vegar háð umræðunni um þetta mál að ekki hafa komið fram nánar útfærðar hugmyndir um hvernig slík stjórnarskrártillaga gæti litið út. Úr þessu höfum við Ágúst Þór Árnason, deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, séð okkur knúna til að bæta með því að birta opinberlega heildstæða tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands ásamt skýringum.

Tillaga okkar að endurskoðaðri stjórnarskrá er að meginstefnu byggð á atriðum sem hafa verið til umræðu á undanförnum árum og áratugum og hafa hlotið nokkuð rækilega athugun. Jafnframt er hér um að ræða atriði, þar sem veruleg samstaða ríkir um breytingar, en sneitt hjá þeim þáttum sem sætt hafa ágreiningi. Hér er því ekki endilega um að ræða einhvers konar draumastjórnarskrá tveggja háskólamanna heldur tilraun til þess að festa hendur á þeim breytingum sem um ríkir víðtæk samstaða. Von okkar er sú að tillagan verði uppbyggilegt framlag til umræðu um stjórnarskrármál á komandi misserum. Tillagan, ásamt skýringum, er birt á vefsíðunni Stjornskipun.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×