Innlent

Of mikilla upplýsinga krafist af stjórnendum

Fjármálaeftirlitið Ekki má efast um fjárhagslegt óhæði stjórnenda fjármálafyrirtækja gagnvart lánveitendum og kröfuhöfum og tekjur þeirra verða að duga til framfærslu og afborgana á skuldum, segir Fjármálaeftirlitið.
Fjármálaeftirlitið Ekki má efast um fjárhagslegt óhæði stjórnenda fjármálafyrirtækja gagnvart lánveitendum og kröfuhöfum og tekjur þeirra verða að duga til framfærslu og afborgana á skuldum, segir Fjármálaeftirlitið.
Persónuvernd segir Fjármálaeftirlitið krefjast of víðtækra persónulegra upplýsinga í því skyni að ganga úr skugga um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnenda fjármálafyrirtækja.

Kona í stjórn fjármálafyrirtækis felldi sig ekki við kröfur Fjármálaeftirlitsins (FME) um hagi hennar og manns hennar og sneri sér til Persónuverndar. Henni hafði verið gert að fylla út eyðublað þar sem óskað var ýtarlegra upplýsinga um fjárhag þeirra hjóna og helstu fjölskylduaðstæður.

„Með eyðublaðinu er gert ráð fyrir að veittar séu upplýsingar um eignir, þar á meðal fasteignir, bifreiðar, innlendar og erlendar innistæður, skráð og óskráð hluta- og skuldabréf og hlutdeildarskírteini lífeyrissjóða. Einnig um skuldir, það er húsnæðislán, skammtímaskuldir, svo sem yfirdrátt og greiðslukortaskuldir, námslán og aðrar skuldir. Að auki um árstekjur eftir skatta, þar á meðal fjármagnstekjur og tekjur maka. Loks um mánaðarleg gjöld vegna húsnæðis, bílaláns, skammtímaskulda, námslána, annarra skulda, meðlags og framfærslu fjölskyldu," eru málavextir útskýrðir í ákvörðun Persónuverndar.

Í erindi sínu til Persónuverndar kvaðst konan telja upplýsingaöflun FME „fara langt út fyrir það sem eðlilegt gæti talist miðað við þá stjórnarsetu sem um var að ræða í hennar tilviki", segir í ákvörðun stofnunarinnar.

Á FME hvílir sú lagaskylda að kanna hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja. Í bréfi stofnunarinnar til Persónuverndar er bent á að frá árinu 2010 sé fjárhagslegt sjálfstæði þessa fólks einn sá þáttur sem FME beri að kanna. Kveðst FME hafa útbúið eyðublað þar sem fram komi upplýsingar um „fjárhagslegt heilbrigði" viðkomandi einstaklinga.

„Við mat á fjárhagslegu sjálfstæði stjórnarmanna lítur Fjármálaeftirlitið meðal annars til þess að eiginfjárstaða sé jákvæð og/eða tekjur maka standi undir afborgunum af skuldum og framfærslu, að skuldir, ábyrgðir gagnvart þriðja aðila og veðsetning eigna séu ekki þess eðlis að efast megi um óhæði gagnvart lánveitanda/kröfuhafa og annarra atriða en að framan greinir sem máli geta skipt," segir FME.

Persónuvernd segir að vinnsla persónuupplýsinga skuli meðal annars vera í skýrum og málefnalegum tilgangi og að persónuupplýsingar skuli vera viðeigandi og ekki umfram nauðsyn. Í eyðublaði FME séu engin takmörk eða viðmið sett, til dæmis um verulega fjármuni eða ábyrgðir eða eðli og umfang skulda.

„Til dæmis virðist þurfa með sama hætti að greina FME frá óverulegum meðlagsskuldum og milljónalánum vegna hlutabréfakaupa," segir Persónuvernd sem kveður FME þurfa að afmarka með skýrari hætti hvaða persónuupplýsingar séu nauðsynlegar vegna mats á fjárhagslegu sjálfstæði.

Á meðan á málarekstrinum stóð breytti FME reglum þannig að nú þarf umboð maka viðkomandi til þess að upplýsingar um makann fari til FME.

gar@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×