Innlent

Borgarskákmótið haldið í 27. sinn

Búast má við harðri keppni á Borgarskákmótinu í dag. Búist er við hátt í hundrað keppendum.
Búast má við harðri keppni á Borgarskákmótinu í dag. Búist er við hátt í hundrað keppendum. fréttablaðið/daníel
Borgarskákmótið verður haldið í 27. sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag klukkan 16.00. Mótið var fyrst haldið á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 og hefur verið haldið ár hvert síðan þá.

Eva Einarsdóttir, formaður ÍTR, mun setja mótið. Venju samkvæmt eru það taflfélögin tvö í Reykjavík sem standa að mótinu, Taflfélag Reykjavíkur og Taflfélagið Hellir. Gera má ráð fyrir að margir af öflugustu skákmönnum þjóðarinnar taki þátt.

Tefldar verða sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma. Þegar Fréttablaðið hafði samband í gærkvöldi höfðu 76 manns skráð sig en búast má við að hátt í hundrað keppendur tefli eða álíka margir og í fyrra.

Hægt er að skrá sig til leiks á vefnum skak.is þar til mótið hefst eða með því að mæta á skákstað. - bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×