Viðskipti innlent

Hagnaður 365 var 250 milljónir

365 miðla ehf. skilaði hagnaði sem nemur 250 milljónum króna árið 2011.
365 miðla ehf. skilaði hagnaði sem nemur 250 milljónum króna árið 2011. fréttablaðið/valli
Rekstur 365 miðla ehf. skilaði hagnaði fyrir árið 2011 sem nemur 250 milljónum króna, eftir afskriftir, fjármagnsliði og skatta. Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir rekstur ársins ásættanlegan í ljósi efnahagsumhverfis. 365 miðlar gefa út Fréttablaðið ásamt því að starfrækja Stöð 2, Vísi.is, Bylgjuna og fleiri fjölmiðla.

Heildarvelta fyrirtækisins árið 2011 nam 9.048 milljónum króna og hagnaður þess fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 803 milljónum króna. Afskriftir og fjármagnsliðir námu 639 milljónum króna árið 2011.

Árið 2010 nam hagnaður ársins 360 milljónum króna og hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta 1.004 milljónum króna.

Lán fyrirtækisins eru í niðurgreiðsluferli og munu skuldir lækka hratt á næstu árum, segir í fréttatilkynningu. Lausafjárstaða félagsins er traust sem og eiginfjárstaða þess.

„Ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta afkomu félagsins," segir Ari. „Þar má nefna endursamninga um sjónvarpsefni, einföldun á rekstri og sameiningu reksturs félagsins á einn stað. Í tengslum við flutninga allrar starfsemi í Skaftahlíð 24 hefur félagið varið vel á annað hundrað milljónum króna til fjárfestinga í nýrri sjónvarpsútsendingu og háskerpuvæðingu útsendingar. Þá er lögð áhersla á að efla enn frekar innlenda dagskrárgerð."

Ari segir að árið 2012 sé gert ráð fyrir verulegum bata í rekstri félagsins frá 2011. Rekstur félagsins fyrri hluta ársins í ár sé í samræmi við þær áætlanir. „Mikil óvissa er þó áfram um efnahagsþróun og rekstrarumhverfi fyrirtækja," segir Ari Edwald.

- bþh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×