Innlent

Styrkja þarf samkeppnissjóði

Ari Kristinn Jónsson
Ari Kristinn Jónsson
Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík segir samkeppnissjóði á Íslandi vera allt of litla. „Okkar skoðun er að samkeppnissjóði beri að styrkja,“ segir hann. „Þeir gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki við útdeilingu fjármagns til vísindarannsókna.“

Hópur vísindamanna afhenti á miðvikudag menntamálaráðherra undirskriftalista 544 vísinda- og fræðimanna til stuðnings samkeppnissjóðum á vegum hins opinbera. Í áskoruninni er bent á að skortur á fé og léleg stjórn á því til hverra féð er veitt hafi áhrif á vísindastörf á Íslandi. Samkeppnissjóðir gangi út á að bestu verkefnin séu valin. Þeir verði jafnframt að gæta jafnræðis svo ný verkefni fái styrki.

„Erlendis er mikill skilningur á þessu hlutverki sjóðanna,“ segir Ari. Tvennt valdi því að sjóðirnir séu ekki eins öflugir hér. „Annars vegar er fjármögnun háskóla hér mjög lág á alþjóðlegum mælikvarða. Hins vegar rennur stór hluti fjárveitinga ríkisins til vísindarannsókna beint til stofnana.“

Ari Kristinn leggur til millileið í fjárveitingu til stofnana og vill árangurstengja framlögin. „Hlutlaus aðili fylgdist með árangri vísindastofnana og til mats hans væri horft þegar ákveðið væri hvert fjármunir ættu að fara. Besta kerfið væri ef einhver hluti stofnanaframlags væri fastur, hluti framlagsins tengdur árangri og stór hluti í samkeppnissjóði,“ segir Ari Kristinn.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×