Viðskipti innlent

Þrotabú Kaupþings og Klakki gefa eftir 250 milljarða hvor

Stærstur Hlutur Arion banka, sem er í 87 prósent eigu þrotabús Kaupþings og 13 prósent eigu íslenska ríkisins, mun þynnast út vegna samkomulagsins. Bankinn verður samt sem áður stærsti einstaki eigandi Klakka.
Stærstur Hlutur Arion banka, sem er í 87 prósent eigu þrotabús Kaupþings og 13 prósent eigu íslenska ríkisins, mun þynnast út vegna samkomulagsins. Bankinn verður samt sem áður stærsti einstaki eigandi Klakka. fréttablaðið/pjetur
Þrotabú Kaupþings og félög í þess eigu eiga 56 prósent af Klakka, sem áður hét Exista, eftir að samkomulag náðist í ágreiningsmálum milli aðilanna í síðustu viku. Þar af verður um 20 prósenta hlutur í beinni eigu þrotabúsins en afgangurinn er að mestu í eigu Arion banka, sem er að mestu í eigu þrotabús Kaupþings. Þetta kemur fram í skjali sem kynnt hefur verið fyrir kröfuhöfum Kaupþings, og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Samkomulagið, sem náðist í síðustu viku, felur auk þess í sér að Klakki/Exista gefur alls eftir 254 milljarða króna kröfur í þrotabú Kaupþings. Þar á meðal eru 13,5 milljarða króna forgangskrafa, 209,2 milljarða króna óveðtryggð krafa og 31,3 milljarða króna krafa sem lögð hafði verið fram í riftunar- og skaðabótamálum. Kröfurnar voru að mestu tilkomnar vegna afleiðusamninga sem Klakki/Exista gerði við Kaupþing fyrir bankahrun. Um er að ræða stærstu einstöku kröfuna í bú Kaupþings sem enn var í ágreiningi. Klakki/Exista var stærsti einstaki eigandi Kaupþings þegar bankinn féll. Félagið var líka annar stærsti skuldari bankans.

Á móti mun Kaupþing, sem átti 50 milljarða króna samþykkta kröfu á Klakka/Existu, losa um 15 milljarða króna innstæðu sem búið hafði haldið hjá sér á meðan deilur stóðu yfir á milli aðilanna tveggja. Heimildir Fréttablaðsins herma að Kaupþing muni auk þess falla frá kröfum á Klakka/Existu sem eru að svipaðri upphæð og þær sem Klakki/Exista féll frá.

Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka/Existu, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann gæti ekki tjáð sig um efnisatriði samkomulagsins vegna trúnaðar. Hann staðfestir þó að þeir fjármunir sem Klakki/Exista mun fá út úr samkomulaginu muni greiðast til eigenda félagsins. Helstu eignir Klakka/Existu eru Skipti hf. (móðurfélag Símans, Mílu og Skjásins), VÍS, Lífís og Lýsing hf. Í nauðasamningi félagsins, sem var staðfestur 17. október 2010, fólst meðal annars að kröfuhafar þess breyttu tíu prósentum af 239,1 milljarða króna kröfum í nýtt hlutafé. 90 prósentum þeirra var síðan breytt í kröfur sem breytanlegar eru í hlutabréf í félaginu ef því tekst ekki að greiða skuldina til baka á tímabilinu 31. desember 2020 til loka árs 2030. Upphæðin fluttist við það af efnahagsreikningi félagsins og kröfuhafar fengu öll yfirráð yfir því. Áður hafði Klakki/Exista verið að mestu í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Vegna nauðasamningsins lækkuðu skuldir Klakka/Existu-samstæðunnar um 308 milljarða króna á árinu 2010. Um er að ræða stærstu staðfestu niðurfærslu á lánum til íslensks félags, ef föllnu bankarnir eru frátaldir.thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×