Viðskipti innlent

Stærsta einkavæðing Íslands

Horn fjárfestingafélag hf. verður skráð á hlutabréfamarkað í Kauphöll Íslands í lok mars eða byrjun apríl næstkomandi, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Auk Horns er gert ráð fyrir að sex önnur félög muni óska eftir skráningu á markað á síðari hluta þessa árs eða á fyrri hluta þess næsta. Þau eru öll, beint eða óbeint, að hluta til eða öllu leyti í eigu Landsbankans. Landsbankinn er í 81 prósents eigu íslenska ríkisins. Virði eigna þessara félaga hleypur á hundruðum milljarða króna. Ljóst er að gangi öll söluáformin eftir mun verða um að ræða stærstu sölu eigna í eigu ríkisins sem farið hefur fram í Íslandssögunni.

Horn er að fullu í eigu Landsbankans. Félagið á meðal annars um helmingshlut í Promens, sem er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu plastafurða, og 12,5 prósenta hlut í Eyri Invest, stærsta einstaka eiganda Marels. Búist er við því að næsta félag á eftir Horni til að skrá sig á markað verði Eimskip og að það muni gerast í lok september eða byrjun október. Horn á 3,95 prósenta hlut í Eimskipi.

Á meðal annarra fyrirtækja sem hafa tilkynnt um skráningaráform eru Reginn, fasteignafélag í 100 prósenta eigu Landsbankans, og Reitir, fasteignafélag sem Landsbankinn á 29,6 prósenta hlut í.

Þá hefur verið greint frá því opinberlega að eigendur Advania og olíurisans N1 hafi hug á því að skrá þau félög á markað. Búist er við því að það geti gerst seint í haust eða á fyrri hluta ársins 2013.

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) á 79 prósenta hlut í Advania og um 55 prósenta hlut í N1. Stærsti einstaki eigandi FSÍ er Landsbankinn.

Þá lýstu bæði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, því opinberlega yfir í lok síðasta árs að vilji væri til þess að skrá bankann á markað. Steinþór sagði í viðtali við Klinkið á Vísi.is í desember síðastliðnum að hann teldi það geta gerst á árinu 2012.

- þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×